Fjarðabyggð, Huginn og Leiknir með góða útisigra - Höttur laut í gervigras á Fellavelli

fotbolti leiknir huginn bikar 0025 webBoltinn fór loksins að rúlla í 1. og 2. deild karla í knattspyrnu um helgina. Skemmst er frá því að segja að Fjarðabyggð, Huginn og Leiknir sóttu virkilega sterka útisigra, en Hattarmenn töpuðu á heimavelli.

Fjarðabyggð fór til Grindavíkur á laugardag, en Grindvíkingar eru með afar sterkt lið sem stefnir á að vera í toppbaráttu í 1. deildinni í sumar. Það blés byrlega fyrir Fjarðabyggð í upphafi leiks en Brynjar Jónasson skoraði eftir einungis fjórar mínútur og Viðar Þór Sigurðsson bætti við öðru marki þegar fimmtán mínútur voru liðnar. 0-2 fyrir nýliðunum.

Verkefnið varð þó heldur erfiðara eftir hálftíma leik, en þá var Milos Ivankovic rekinn af velli og ljóst að Fjarðabyggðarmenn þyrftu að leika einum færri í rúman klukkutíma. Grindvíkingar minnkuðu muninn í 1-2 skömmu seinna úr vítaspyrnu en nær komust þeir þó ekki. Fjarðabyggð fékk víti undir lok fyrri hálfleiks sem Brynjar Jónasson skoraði örugglega úr og fleiri urðu mörkin ekki í Grindavík. Virkilega sterk byrjun hjá liði Fjarðabyggðar.

Huginn byrjaði mótið sömuleiðis með góðum útisigri í Þorlákshöfn í gær. Þeir spiluðu ekki sinn besta leik og heimamenn í Ægi stjórnuðu gangi leiksins lengst af.

Huginsmenn komust þó yfir með vítaspyrnu frá Marko Nicolic um miðbik fyrri hálfleiks og höfðu 0-1 forystu í leikhléi. Á 59. mínútu jöfnuðu Ægismenn og virtust á þeim tímapunkti vera líklegir til að snúa leiknum sér í vil.

Tíu mínútum síðar fengu Huginsmenn síðan aðra vítaspyrnu og Marko fór aftur á punktinn og skoraði aftur af miklu öryggi framhjá landsliðsmarkverði Antigua og Barbúda, sem stendur á milli stanganna hjá Þorlákshafnarbúum.

Heimamenn í Ægi naga sig eflaust í handarbökin yfir þessum vítum, sem bæði skrifuðust á klaufalegan varnarleik. Ægismenn játuðu sig þó ekki sigraða og jöfnuðu með skoti fyrir utan teig sem sveif í fögrum boga yfir Jón Kolbein í markinu.

Flest virtist benda til þess að leiknum lyki með jafntefli, en Huginsmenn náðu að tryggja sér sigurinn á sjöttu mínútu uppbótartíma. Þá fengu þeir aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Ægis og hinn 15 ára gamli Stefán Ómar Magnússon stangaði knöttinn í netið fyrir Seyðfirðinga. Leikurinn var svo flautaður af um leið og Ægismenn tóku miðju. Frábær úrslit fyrir Huginn.

Leiknismenn sóttu líka þrjú stig er þeir mættu Tindastóli í Boganum á Akureyri. Leiknum lauk með 1-2 sigri Leiknis. Fernando Garcia Castellanos kom Leikni yfir snemma leiks áður en jafnaði fyrir Tindastól á 30. mínútu. Markaskorari Tindastóls fékk síðan reisupassann á 69. mínútu og Leiknismenn náðu að knýja fram sigur undir lokin með marki frá Hilmari Frey Bjartþórssyni. Virkilega góð þrjú stig hjá Leiknismönnum.

Hattarmenn fengu Njarðvíkinga í heimsókn á Fellavöll í frosti og snjókomu á laugardag. Niðurstaðan varð 0-1 sigur gestanna, þeir skoruðu eftir tæplega hálftíma leik og leikmenn Hattar náðu ekki að svara. Hattarmenn hefðu eflaust viljað gera betur í sínum fyrsta leik á heimavelli og gaman verður að sjá hvað þeir gera í næstu umferð, en þá mæta þeir Huginn í nágrannaslag. Huginn á heimaleik en líklega fer leikurinn þó fram á Fellavelli.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.