Knattspyrna: Leiknir sló Huginn út í vítaspyrnukeppni – Myndir

fotbolti leiknir huginn bikar 0002 webLeiknir er kominn áfram í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir að hafa slegið Huginn út eftir vítaspyrnukeppni á Fellavelli í gær. Einherji er úr leik eftir að hafa tapað fyrir Sindra á sama stað á laugardag.

Leikur Hugins og Leiknis endaði 0-0 og var fremur tíðindalítill. Fernando Revilla Calleja skoraði mark í lok fyrri hálfleiks sem var dæmt af vegna rangstöðu og í seinni hálfleik áttu Leiknismenn skot í stöng.

Fjör færðist ekki í leikinn fyrr en í seinni hluta framlengingar þegar liðin skiptust á skyndisóknum. Mörk komu þó ekki upp úr þeim og því var farið í vítakeppni.

Fernando tók aðra spyrnu Hugins en hún var varin. Áður hafði Marko Nikolic skorað úr fyrstu spyrnu Hugins. Hilmar Freyr Bjartþórsson, Vignir Daníel Lúðvíksson og Fannar Bjarki Pétursson skoruðu á móti úr fyrstu þremur spyrnum Leiknis.

Jón Kolbeinn Guðjónsson, sem kominn er aftur í mark Hugins, varði þá frábærlega spyrnu Kristófers Páls Viðarssonar og skoraði svo sjálfur úr fimmtu spyrnunni, jafnaði í 4-4 og knúði fram bráðabana. Áður höfðu Miguel Gudiel Garcia og Einar Óli Þorvarðarson skorað fyrir Huginn en Marinó Óli Sigurbjörnsson fyrir Leikni.

Kollegi Jóns úr Leikni, Bergsteinn Magnússon, skoraði úr fyrstu spyrnu bráðabanans en Blazo Lalevic jafnaði fyrir Huginn. Paul Bogdan Nicolescu skoraði fyrir Leikni áður en Bergsteinn tók sig til, skutlaði sér niður til hægri og greip spyrnu Stefáns Ómars Magnússonar og tryggði Leikni sigurinn.

„Við vissum að þeir yrðu harðir í horn að taka eins og vanalega þannig að leikurinn yrði jafn en að mínu viti hefðum við átt að klára leikinn áður en kom til framlengingar. Mér fannst við taka yfir leikinn síðustu 25-30 mínúturnar," sagði Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis.

„Þeir stóðu hins vegar á sínu og náðu að halda jöfnu. Í framlengingunni var mikið dregið af báðum liðum og eftir að í vítaspyrnukeppnina var komið gat sigurinn lent hvoru megin sem var."

Leiknir á enn eftir að styrkja hópinn, einn Spánverji fylgdist með af hliðarlínunni en hann bíður eftir leikheimild og annar er á leiðinni.

„Leiknismenn eru mjög spenntir fyrir sumrinu enda um 30 ár síðan félagið spilaði í sambærilegri deild," sagði Viðar.

Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, sagði leikinn hafa verið þokkalegan miðað við lítinn undirbúning en liðið var ekki með í Lengjubikarnum í ár.

„Við erum búnir að æfa einu sinni saman og það var í klukkutíma daginn fyrir leik. Þetta er fyrsti leikur og menn vita varla nafnið á næsta manni."

Tveir nýir spænskir leikmenn spiluðu í gær sinn fyrsta leik með Huginn. „Þeir voru ágætir en það er á hreinu að þetta voru ekki kjöraðstæður fyrir þá. Það var frekar kalt í dag."

Hann vildi ekki gefa upp hvort liðið myndi styrkja sig frekar fyrir deildina sem hefst um næstu helgi. „Það kemur í ljós. Það er ekkert komið fyrr en búið er að skrifa undir."

Huginn spilar annað árið í röð í annarri deild og Seyðfirðingar eru líkt og aðrir spenntir fyrir sumrinu. „Þetta verður örugglega skemmtilegt sumar, það er að segja ef það kemur einhvern tíman sumar!

Einherji er úr leik eftir 2-4 tap fyrir Sindra. Einar Smári Þorsteinsson kom Hornfirðingum yfir strax á sjöundu mínútu en Vopnfirðingar voru yfir í hálfleik eftir að Sigurður Donys Sigurðsson skoraði tvö mörk rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Róður Einherjamanna þyngdist þegar Dilyan Kolev var rekinn út af á 66. mínútu og tíu mínútum síðar skoruðu Einar Smári og Sigurður Bjarni Jónsson sitt markið hvor með mínútu millibili. Sigurður Bjarni innsiglaði svo sigurinn með marki í uppbótartíma.

Næsta umferð í forkeppni bikarsins verður 19. maí. Sindri tekur þá á móti Hetti og Leiknir á móti Fjarðabyggð.
fotbolti leiknir huginn bikar 0009 webfotbolti leiknir huginn bikar 0010 webfotbolti leiknir huginn bikar 0013 webfotbolti leiknir huginn bikar 0016 webfotbolti leiknir huginn bikar 0020 webfotbolti leiknir huginn bikar 0024 webfotbolti leiknir huginn bikar 0025 webfotbolti leiknir huginn bikar 0026 webfotbolti leiknir huginn bikar 0034 webfotbolti leiknir huginn bikar 0035 webfotbolti leiknir huginn bikar 0040 webfotbolti leiknir huginn bikar 0049 webfotbolti leiknir huginn bikar 0060 webfotbolti leiknir huginn bikar 0061 webfotbolti leiknir huginn bikar 0066 webfotbolti leiknir huginn bikar 0069 webfotbolti leiknir huginn bikar 0075 webfotbolti leiknir huginn bikar 0077 webfotbolti leiknir huginn bikar 0083 web
fotbolti leiknir huginn bikar 0007 web
fotbolti einherji sindri bikar 0001 webfotbolti einherji sindri bikar 0004 webfotbolti einherji sindri bikar 0007 webfotbolti einherji sindri bikar 0016 webfotbolti einherji sindri bikar 0027 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.