Íþróttir helgarinnar: Valur batt enda á 11 leikja sigurgöngu Hattar

karfa hottur breidablik jan15 0020 webEllefu leikja sigurgöngu Hattar í fyrstu deild karla lauk í gær þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Val. Kvennalið Þróttar tapaði tvisvar gegn Stjörnunni um helgina og Fjarðabyggð tapaði fyrsta leik sínum í Lengjubikarnum. Fjarðabyggð féll úr leik í spurningakeppninni Útsvar.

Hattarmenn voru yfir framan af leik, 19-15 eftir fyrsta leikhlut og áfram með undirtökin í öðrum leikhluta þar sem þeir náðu mest 39-25 forskoti.

Fleiri stig skoruðu Hattarmenn ekki í leikhlutanum en Valsmenn skoruðu 11 í röð og minnkuðu muninn í 39-36 fyrir leikhlé.

Leikurinn snérist í þriðja leikhluta þegar Valsmenn komust í 46-48 og voru 55-64 yfir að honum loknum.

Mestur varð munurinn 19 stig um miðvik fjórða leikhluta. Valsmenn gátu því leyft sér að slaka á í lokin en lokatölur urðu 82-95.

Tobin Carberry var sem fyrr stigahæstur með 28 stig auk þess að taka 11 fráköst og senda 10 stoðsendingar. Ragnar Gerald Albertsson og Viðar Örn Hafsteinsson skoruðu 16 stig hvor.

Höttur er samt enn í efsta sæti deildarinnar með 8 stiga forskot á FSu sem á tvo leiki til góða. FSu mætir Hamri í kvöld.

Kvennalið Þróttar tapaði báðum leikjum sínum gegn Stjörnunni í Garðabæ um helgina. Oddahrinu þurfti til að fá fram úrslit í fyrri leiknum á föstudagskvöld en hann fór í hrinum 23-25, 25-15, 21-25, 25-17 og 25-13.

Seinni leikinn vann Stjarnan örugglega 3-0 eða 25-18, 25-17 og 27-25 í hrinum.

Þróttur er í fjórða sæti með 13 stig og mætir Þrótti Reykjavík í tveimur leikjum syðra um næstu helgi en liðin berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Fjarðabyggð tapaði 1-2 fyrir Þór Akureyri í fyrsta leik liðanna í 3. riðli Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær. Martin Sindri Rosenthal kom Fjarðabyggð yfir á 24. mínútu en Jóhann Helgi Hannesson skoraði mörk Þórsara á 52. og 62. mínútu.

Liði Fjarðabyggðar í Útsvari gekk heldur ekki betur en það tapaði fyrir Reykjanesbæ 75-61 í Útsvari á föstudagskvöld. Fjarðabyggð hafði sex stiga forustu fyrir stóru spurningarnar í lokin en þar snéri Reykjanesbær við taflinu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.