Knattspyrna: Seinni leikir Leiknis og Hugins í kvöld

Leiknir Huginn

Leiknir og Huginn leika seinni leiki sína í úrslitakeppni þriðju deildar karla í kvöld. Höttur og Fjarðabyggð unnu báða mikilvæga sigra í fallbaráttum sínum um síðustu helgi.

 

Huginn tapaði fyrri leik sínum gegn Ægi í Þorlákshöfn á laugardag 1-0. Eina markið kom á 39. mínútu úr vítaspyrnu sem dæmd var á Atla Gunnar Guðmundsson, markvörð Hugins, sem braut á sóknarmanni sem kominn var í upplagt marktækifæri. Atli Gunnar missir því af seinni leiknum og óljóst er hvernig Huginsmenn leysa þau mál. Líklegt þykir að framherjinn teinar Aron Magnússon verði í markinu en hann tók við af Atla á laugardag.

 

Leiknir Fáskrúðsfirði vann Víði úr Garði 2-1 á Búðagrund með mörkum Hilmars Freys Bjartþórssonar, hvort í sínum hálfleik. Fáskrúðsfirðingar voru manni færri síðustu 35 mínútur leiksins eftir að László Szilágyi fékk tvö gul spjöld á fjórum mínútum fyrir mótmæli.

 

Leikirnir í kvöld hefjast báðir kl. 17:30. Huginn spilar á Seyðisfirði en Leiknir í Garðinum.

 

Höttur vann Fjölni á útivelli 1-2 í 1. deild karla. Elvar Ægisson skoraði bæði mörkin, það seinna á 76. mínútu aðeins mínútu eftir að Fjölnismenn jöfnuðu. Höttur er þar með kominn með fimm stiga forskot á Leikni Reykjavík, sem er í næst neðsta sætinu og rak þjálfara sinn, Willum Þór Þórsson, í gær. Höttur tekur á móti Tindastóli á Vilhjálmsvelli kl. 17:00 á morgun.

 

Von Fjarðabyggðar um að halda sæti sínu í annarri deild lifir enn eftir 3-1 sigur á Hamri á Eskifjarðarvelli á laugardag. Víkingur Pálmason skoraði tvö mörk fyrir Fjarðabyggð og Hákon Þór Sófusson eitt. Eftir leikinn er Fjarðabyggð fjórum stigum á eftir Gróttu sem er í tíunda sæti.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar