240 þátttakendur í Urriðavatnssundi

Metþátttaka verður í Urriðavatnssundinu á laugardags en 240 sundmenn eru skráðir til í aðalsundinu leiks að þessu sinni. Elsti keppandinn að þessu sinni er 75 ára.

„Við fórum af stað með 180 pláss, líkt og í fyrra. Þau fylltust á örfáum mínútum. Eftir það bættum við við 60 plássum sem fóru á hálftíma. Síðan eru tveir á biðlista ef það myndast eyður,“ segir Þórunn Hálfdánardóttir, einn skipuleggjenda sundsins.

Til viðbótar 2,5 km löngu aðalsundinu verður að þessu sinni boðið upp á 500 metra ungmenna- og skemmtisund sem tólf eru skráðir í. Því munu yfir 250 sundmenn synda í Urriðavatni á laugardag. Sundfólkinu í langa sundinu er skipt upp í fjóra riðla og verður sá fyrsti ræstur klukkan 7:15 á laugardagsmorgunn en sá síðasti klukkan 11:30. Skemmtisundinu verður stungið inn á milli klukkan 9:45.

Urriðavatnssundið er fulltrúi Austurlands í svokallaðri landvættaþraut, en til að ljúka henni þarf að leggja í skíðagöngu á Vestfjörðum, fjallahlaup á Norðurlandi og hjólreiðar á Reykjanesi auk sundsins innan árs. „Þetta er oft sá hluti sem reynist fólki erfiðastur,“ segir Þórunn.

Eins og fjölgunin ber með sér munu margir þreyta sundið í fyrsta sinn. Það á sér sína fastagesti. Eiríkur Stefán Einarsson, sem fyrstur þreytti sundið, syndir nú í tíunda skiptið en formleg keppni hófst 2013. Elsti keppandinn í ár er 75 ára gömul kona og sá yngsti í ungmennasundinu 2007.

„Það kemur alltaf ákveðinn kjarni. Ég er búinn að heyra í konu sem synti í erfiðum veðurskilyrðum hér 2017 og vonast til að prófa sundið nú við venjulegar aðstæður,“ segir Þórunn.

Vatnshitinn slái upp í 15 gráður

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við innri enda Urriðavatns í sumar við aðstöðu Vök baths. Sundið í ár fer frá hefðbundnum stað, tanganum sem kenndur er við Hitaveitu Egilsstaða og Fella en eftir er að skoða svæðið úti fyrir baðstað Vakar betur upp á sund. Til stendur að nota tækifærið um helgina til að fara þar yfir á bátum með tæki sem skanna botninn.

Í vikunni hefur verið fylgst náið með hitastiginu í vatninu. Það var 13,5°C síðast þegar mælt var en miðað við veðurspá næstu daga má reikna með að hitinn verði kominn upp í 14,5-15°C á laugardagsmorgunn. Þórunn bætir við að vatnsborð vatnsins sé heldur lægra en oft áður sem gæti kallað á smávægilegar breytingar á sundleiðinni.

Byrjað er að setja út baujur til að merkja leiðina og verður framhaldið í dag og á morgun. Þeim tilmælum er beint til þeirra sundmanna sem vilja prófa vatnið að fara ekki út á það svæði sem verið er að setja út baujur á. Æfingasvæði er afmarkað við víkina þar sem sundið er ræst og út að fyrstu bauju.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.