Guðjón Valur: Gefur okkur mikið hvað börnin eru glöð og ánægð

handbolti 1906Um sextíu börn sóttu í dag handknattleiksæfingar með landsliðsmönnunum Björgvini Páli Gústafssyni, Aroni Pálmasyni og Guðjóni Val Sigurðssyni á Egilsstöðum. Guðjón Valur segir þremenningana hafa fundið fyrir hlýjum móttökum.

„Þetta var mjög gaman, það voru allir mjög glaðir og ánægðir," sagði Guðjón Valur í lok æfinganna. „Þið sjáið á börnunum hvað þau eru glöð og það gefur okkur heilmikið."

Æfingarnar voru aldursskiptar, fyrst 13-16 ára þar sem um tíu þátttakendur voru en á seinni æfingunni fyrir 6-12 ára voru um 50 krakkar.

„Fólkið hér þekkir okkur en hefur ekki séð okkur og þykir vænt um að við séum að koma. Það er gaman að gera fólki þann greiða að sýna okkur en láta gott af okkur leiða um leið," segir Guðjón Valur en ágóði ferðarinnar rennur til barnaspítala hringsins.

Auk Egilsstaða verður komið við á Húsavík og Ísafirði. „Þetta er ekki lítil þorp. Það býr fullt af fólki í þeim og íþróttastarfið gott þótt handboltinn hafi legið aðeins niðri. Það er gaman að geta stutt við það þótt það sé ekki nema með því að rétt að mæta og leika við krakkana."

Þremenningarnir hjóla hluta leiðarinnar en þeir eru komnir í frí frá handboltanum í Þýskalandi þar sem þeir eru atvinnumenn.

„Þetta eru engar Frakklandshjólreiðar hjá okkur. Við erum bara að halda okkur aðeins við og gerum þá frekar á hjólunum frekar en inni í sal."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.