Leikur helgarinnar: Huginn vann Aftureldingu með marki á lokamínútunni

fotbolti leiknir huginn webHuginn og Afturelding mættust í þriðju umferð annarrar deildar karla á laugardaginn. Afturelding hafði fengið fjögur stig í fyrstu tveimur umferðunum á meðan að Huginn voru stigalausir. Leikið var á Fellavelli enda Seyðisfjarðarvöllur slæmur eftir erfiðan vetur.

Fyrri hálfleikurinn var tilþrifalítill og var hvorugt liðið líklegt til þess að skora. Mikill vindur var á Fellavelli og var sóknarleikur beggja liða ekki spennandi.

Það var í raun ekki fyrr en að tíu mínútur voru eftir sem að það kom eitthvað líf í leikinn. Leikmenn aftureldingar vildu fá vítaspyrnu þegar sóknarmaður þeirra féll í teignum en hann var spjaldaður fyrir leikaraskap.

Bæði lið áttu flottar sóknir í lokin en það var Huginn sem að náði að setja sigurmarkið og var þar að verki Ingimar Jóhannsson sem að lagði boltann stórglæsilega upp í fjær vinkilinn með skoti rétt fyrir utan teig. Þetta var á 90. mínútu leiksins og höfðu Mosfellingar því ekki mikinn tíma til þess að jafna leikinn.

Afturelding ætluðu sér ekki tómhentir heim og reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en þétt vörn Huginsmanna hélt hreinu. Fyrirliðinn, Birkir Pálson. var þar manna fremstur og var maður leiksins.

Vinnusigur Hugins var þar með staðreynd og ljóst að Seyðfirðingar eru hæst ánægðir með að vera komnir á blað í deildinni. Spennandi verður að sjá hvernig þeir fylgja þessum sigri eftir og ljóst að baráttan í annarri deildinni verður skemmtileg í sumar.

Huginn var ekki eina liðið um helgina sem tryggði sér sigur á lokamínútunum. Tommy Nielsen tryggði Fjarðabyggð sigur á Dalvík/Reyni með marki úr vítaspyrnu á 88. mínútu en liðin mættust á Norðfjarðarvelli. Fimm mínútum fyrr hafði miðvörðurinn Nikolas Jelicic fengið sitt annað gula spjald og þar með það rauða í fyrsta leik sínum fyrir liðið.

Fjarðabyggð komst yfir með marki Hákons Þórs Sófussonar strax á þriðju mínútu og Emil Stefánsson kom heimamönnum í 2-0 með marki á 37. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn á 42. mínútu og jöfnuðu á 53.

Höttur sigraði Hamar í Hveragerði með marki Elvars Þórs Ægissonar í uppbótartíma. Heimamenn virtust með unninn leik í höndunum í hálfleik þar sem þeir voru 2-0 yfir og höfðu skorað seinna markið úr víti á 45. mínútu.

Jovan Kujundzic minnkaði muninn á 67. mínútu og Bragi Emilsson jafnaði á 87. mínútu áður en Elvar Þór skoraði sigurmarkið á 91. mínútu.

Leiknir burstaði Einherja í Austfjarðaslag helgarinnar 5-0. Arkadiusz Grzelak skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og Marinó Óli Sigurbjörnsson eitt en þeir Kristófer Páll Viðarsson og Marteinn Þór Pálmason bættu við mörkum í seinni hálfleik.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.