Leikur helgarinnar: Stál í stál í fyrsta Austurlandsslag sumarsins

leiknir kff fotbolti 14092013 0011 webÞað viðraði ágætlega til knattspyrnu á laugardag þegar Höttur og Leiknir mættust á Fellavelli í fyrstu umferð þriðju deildar karla.

Leikurinn fór nokkuð hægt af stað fyrstu tuttugu mínúturnar. Á 22. mínútu dró aðeins til tíðinda þegar að Carlos Monleon leikmaður Leiknis braust í gegnum alla miðjuna með svakalegum spretti, boltinn hrökk af aftasta varnarmanni þar sem að Svanur Freyr var mættur til þess að skjóta honum með tánni nístingsfast en boltinn rétt framhjá.

Þegar að um hálftími var liðinn átti Runólfur Sveinn Sigmundsson miðvörður Hattar fáranlega flottan flugskalla sem fór í slá, stöng og út. Nokkrum mínútum síðar átti svo Högni Helgason gott skot í slá af stuttu færi eftir fallega sendingu Garðars Grétarssonar.

Eftir um 45 mínútur flautaði dómari leiksins til hálf leiks þar sem staðan stóð núll – núll.

Seinni hálfleikur fór vel af stað fyrir hlutlausa áhorfendur og reyndist mun skemmtilegri en sá fyrri. Þegar hann var um mínútu gamall komust Leiknir í ágætis færi á fjærstöng en Juan Rodriguez bombaði boltanum yfir.

Á 51. mínútu var komið að fyrsta marki leiksins. Það var þá sem Rodriguez fékk boltann út á vinstri kanti og tók gullfallegt bogaskot í fjærhornið.

Fjórum mínútum eftir fyrsta mark leiksins kom það næsta. Óttar Guðlaugsson, hægri bakvörður Hattar, átti þá fyrirgjöf sem Garðar Már skallaði að marki, Óðinn Ómarsson gerði vel í að verja en Marteinn Gauti Kárason var mættur í sníkjuna og ýtti boltanum yfir línuna, staðan því orðin 1-1.

Tveimur mínútum síðar átti svo Brynjar Árnason leikmaður Hattar frábært skot sem endaði í slánni, þriðja skiptið sem boltinn fór í tréverkið frá Hetti.

Þegar klukkutími var liðinn að leiknum var komið að fallegasta marki leiksins. Hattarmenn fengu þá nokkuð ódýra aukaspyrnu um þrjátíu metra frá marki og þökkuðu fyrir sig pent með því að klína boltann í hornið, algjörlega óverjandi. Var þar að verki Elvar Ægisson.

Eftir annað mark Hattar tók hinsvegar Leiknir nokkuð yfir leikinn en Höttur byrjuðu seinni hálfleik mjög vel.

Á 73. mínútu náðu svo gestirnir að jafna en þar var að verki hinn bráðefnilegi Kristófer Páll Viðarsson, en boltinn barst til hans inn í teig eftir að Hetti gekk brösulega að koma boltanum frá marki.

Síðustu mínútur leiksins gáfu ekki af sér alvöru færi en gestirnir voru þó líklegri ef eitthvað.

Jafntefli því niðurstaðan og nokkuð sanngjörn úrslit.

Bæði lið líta ágætlega út fyrir sumarið, ljóst er að Leiknir hefur náð sér í fína Spánverja.

Höttur hefur yfir að búa fínu byrjunarliði í sumar sem samanstendur eiginlega nánast af heimastrákum. Það er hinsvegar klárt að breiddin þar er ekkert til að hrópa húrra fyrir, Brynjar Árnason og Friðrik Ingi Þráinsson þurftu báðir að fara meiddir af velli og þurfa Hattarmenn að fá þá fljótt til baka.

Erfitt er að velja besta mann leiksins en undirritaðir voru þó sérstaklega hrifnir af spilamennsku miðvarðarpars Hattar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.