Hjalti Þór: Er að leiðrétta eigin mistök

karfa hottur fjolnir 04042014 0069 webFjölnir tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í haust eftir 81-98 sigur á Hetti í öðrum leik liðanna. Þjálfari Fjölnis segir liðið vera komið aftur á þann stað sem það á heima.

„Það er frábær tilfinning að vera kominn aftur í úrvalsdeildina. Ég er að leiðrétta eigin mistök, við áttum aldrei að falla," sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Austurfrétt eftir 81-98 sigur á Hetti í kvöld.

Með sigrinum tryggði Fjölnir sér úrvalsdeildarsæti á næstu leiktíð en liðið vann fyrri leik liðanna í úrslitaeinvíginu á þriðjudag.

Leikurinn í kvöld þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Um miðjan annan leikhluta sigldi Fjölnir framúr og var 34-50 yfir í hálfleik. Sú forusta var aldrei í hættu nema rétt undir lokin þegar Höttur minnkaði muninn í sex stig. Fjölnismenn héldu út og kafsigldu Egilsstaðaliðið á síðustu mínútunum.

Annar leikhlutinn lagði grunninn að sigri Fjölnis. Þeir skoruðu þar 33 stig gegn 16 og spiluðu stórkostlega vörn.

„Við vissum að þeir leituðu mikið að (Gerald) Robinson og (Austin) Bracey og reyndum að yfirdekka þá og þreyta eins og við gátum. Við mættum síðan í hjálparvörn og vorum á tánum við að ganga út í skytturnar."

Ólafur Torfason, fyrirliði Fjölnis, sagði að þrátt fyrir töluverða yfirburði í báðum leikjunum gegn Hetti hefði þeir síður en svo verið léttir.

„Það býr fullt í þessu Hattarliði en við lögðum upp með leikáætlun sem gekk mjög vel í fyrri leiknum og á löngum köflum í þessum leik."

Hann sagðist hlakka til að takast á við úrvalsdeildina í haust. „Við mætum klárir þangað."

Fjölnismenn gista á Egilsstöðum í nótt en klukkutíma seinkunn á upphafi leiksins út af bilun í leikklukku varð til þess að síðasta vél kvöldsins frá Egilsstöðum gat ekki beðið eftir þeim.

Darron Sims átti stórleik fyrir Fjölni í kvöld, skoraði 27 stig og hirti 18 fráköst og tók alltaf af skarið þegar þess þurfti. Páll Fannar Helgason var einnig illstöðvandi og skoraði 25 stig.

karfa hottur fjolnir 04042014 0072 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0073 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0074 webkarfa hottur fjolnir 04042014 0080 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.