Höttur tapaði gegn Fjölni: Eins og óþekkir krakkar sem gera ekki það sem þeim er sagt

karfa hottur thorak 03032014 0005 webHöttur steinlá fyrir Fjölni í gærkvöldi, 88-62 í fyrsta leik liðanna um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Þjálfari Hattar segir liðið hafa spilað skelfilega og ekki til komi til greina að sýna sambærilega frammistöðu aftur.

„Það eru engar afsaknir, menn voru einfaldlega skítlélegir," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

„Menn sem eiga að hafa reynsluna til að stíga upp voru okkar lélegustu menn. Við vorum húðlatir og héldum að þetta kæmi af sjálfu sér.

Það má líkja þessu við óþekka krakka sem gera ekki það sem foreldrarnir segja þeim að gera og halda að þeir viti betur."

Leikurinn var jafn fyrsta kortérið en eftir það tóku Fjölnismenn öll völd og keyrðu yfir Hattarmenn. Með þriggja stiga flautukörfu Darron Sims fyrir leikhlé náðu þeir þrettán stiga forskoti, 51-38 og við það juku þeir í þriðja leikhluta.

„Menn fóru að pirra sig á hlutum sem ekki gengu upp og gerðu ekki það sem við ætluðum að gera sem var að vera með í fráköstum og berjast. Vörnin var léleg allan tímann. Þú vinnur ekki leik í lokaúrslitum ef þú spilar ekki vörn og berst. Það er margt sem má klikka en ekki þetta."

Liðin mætast aftur á Egilsstöðum á föstudagskvöld en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í rimmunni spilar í úrvalsdeildinni í haust. Hitt verður áfram í fyrstu deild. Viðar Örn segir að reki menn ekki af sér slyðruorðið verði þeir að finna sér annað að gera.

„Það er ekki fræðilegur möguleiki að það sem gerðist í gærkvöldi endurtaki sig en ef menn verða ekki tilbúnir í leik númer tvö þá verða þeir að finna sér annað lið til að spila með. Þeir geta farið heim og spilað körfubolta í tölvunni þar sem hægt er að ýta á „restart" ef maður tapar.

Við erum komnir með bakið upp að vegg og það er engin endurræsing í boði eftir föstudaginn."

Viðar segir að dagarnir fram að leik verði nýttir vel og treystir á stuðning Austfirðinga. „Það skiptir öllu máli að við fáum yfir 500 áhorfendur. Heilt yfir hafa leikirnir verið vel sóttir á Egilsstöðum og okkur tekist að búa til ágætis gryfju."

Austin Bracey var stigahæstur Hattarmanna í gærkvöldi með 24 stig en Gerald Robinson skoraði sautján.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.