Körfubolti: Höttur í úrslit eftir eins stigs sigur á Þór – Myndir

karfa hottur thorak 25032014 0118 webLið Hattar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum fyrstu deildar karla í körfuknattleik með 79-78 sigri á Þór Akureyri í seinni leik liðanna í undanúrslitum. Þetta er þriðji eins stigs sigur Hattar á Þór í vetur. Leikurinn varð dramatískur í leikslok þegar Höttur snéri leiknum sér í hag og Þórsarar voru æfir út í dómarana í leikslok.

Hattarmenn byrjuðu leikinn betur en Þórsarar snéru leiknum sér í vil í lok fyrsta fjórðungs og voru yfir að honum loknum, 17-20 og enn í hálfleik, 38-45. Bæði liðin spiluðu fínan varnarleik en Hattarmenn hittu illa körfuna þegar þeir fengu skotfæri.

Um miðjan þriðja leikhluta voru gestirnir komnir með þrettán stiga forustu, 48-61. Þá fór hins vegar að draga til tíðinda. Í fyrsta lagi fékk Sveinn Blöndal, sem var aðalmaðurinn í öllum aðgerðum Þórs, sína fjórðu villu og var skipt út af. Í öðru lagi fóru Þórsarar að þreytast enda keyrðu þeir nánast á sömu fimm leikmönnunum allan leikinn.

Í þriðja lagi hlaut Gerald Robinson, í liði Hattar, skurð á ennið þannig að fossblæddi úr. Leikurinn var stöðvaður á meðan hlúð var að honum á gólfinu en hann stóð upp og var leiddur úr salnum.

Brotthvarf hans virtist hleypa auknum krafti í Hattarmenn sem minnkuðu muninn í 59-63 áður en leikhlutinn kláraðist. Til marks um þessa auknu baráttu má nefna að fjórir Hattarmenn hentu sér í baráttu við Þórsarann Jeffrey Clayton um lausan bolta og tókst að vinna uppkastið.

Þórsarar voru enn sex stigum yfir, 67-73, þegar Gerald snéri aftur, í treyju liðsfélaga sem hafði verið snúið öfugt og tússað í númerið hans sjö og með sárabindi um höfuðið sem virtist svo neðarlega að hæpið er að hann hafi haft nokkurt útsýni.

Þrátt fyrir að Eysteinn Bjarni Ævarsson og Benedikt Guðgeirsson Hjarðar fengju sínar fimmtu villur dró það ekki úr Hattarmönnum. Viðar Örn Hafsteinsson skoraði og fékk víti sem varð til þess að Höttur jafnaði í 75-75 og Gerald tók síðan forustuna með að tryggja þeim tvisvar forustuna í næstu sóknum, 77-75 og 79-77.

Hann missti reyndar boltann í síðustu sókn Hattar og Þórsarar fengu eina loka sókn. Fótur var dæmdur á leikmann Hattar þannig Þórsarar fengu innkast þegar 5,5 sekúndur voru eftir. Boltinn barst þvert yfir völlinn yfir í teiginn hægra megin og þar ætlaði Ólafur Aron Ingvason að keyra að körfunni.

Ólafur og skot hans strönduðu á Gerald og leiktíminn rann út. Hattarmenn hlupu hring í salnum og fögnuðu sigri á meðan Þórsarar helltu sér yfir dómarana því þeir vildu meina að Gerald hefði hreyft sig í áttina að Ólafi og því ætti að dæma á hann villu.

Sveini Blöndal var vísað út úr húsi eftir leikinn. Hann var farinn út úr salnum en snéri aftur, barði í ritaraborðið og jós fúkyrðum yfir dómarana. Hattarmenn sungu á sama tíma „úrvalsdeild, úrvalsdeild."

Austin Bracey skoraði 24 stig fyrir Hött í kvöld en Gerald Robinson átján auk þess að taka sautján fráköst. Jarrell Crayton skoraði 27 stig fyrir Þór og tók fimmtán fráköst. Sveinn Blöndal skoraði átján stig.

Fjölnir og Breiðablik mætast í oddaleik í hinni undanúrslitarimmunni annað kvöld og eftir þann leik skýrist hvort liðið mætir Hetti í leikjum um laust sæti í úrvalsdeild í haust.

karfa hottur thorak 25032014 0003 webkarfa hottur thorak 25032014 0013 webkarfa hottur thorak 25032014 0018 webkarfa hottur thorak 25032014 0022 webkarfa hottur thorak 25032014 0026 webkarfa hottur thorak 25032014 0030 webkarfa hottur thorak 25032014 0043 webkarfa hottur thorak 25032014 0049 webkarfa hottur thorak 25032014 0053 webkarfa hottur thorak 25032014 0056 webkarfa hottur thorak 25032014 0060 webkarfa hottur thorak 25032014 0062 webkarfa hottur thorak 25032014 0064 webkarfa hottur thorak 25032014 0067 webkarfa hottur thorak 25032014 0069 webkarfa hottur thorak 25032014 0075 webkarfa hottur thorak 25032014 0077 webkarfa hottur thorak 25032014 0081 webkarfa hottur thorak 25032014 0086 webkarfa hottur thorak 25032014 0091 webkarfa hottur thorak 25032014 0107 webkarfa hottur thorak 25032014 0118 webkarfa hottur thorak 25032014 0125 webkarfa hottur thorak 25032014 0126 webkarfa hottur thorak 25032014 0140 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.