Körfubolti: Ótrúleg þriggja stiga flautukarfa tryggði Hetti sigur á Þór - Myndir

karfa hottur thorak 03032014 0005 webAndrés Kristleifsson var hetja Hattar í kvöld þegar liðið lagði Þór Akureyri 71-70 í fyrstu deild karla í körfuknattleik. Andrés stökk upp vel fyrir utan þriggja stiga línuna með varnarmann í andlitinu og fleygði boltanum ofan í körfuna þegar sekúnda var eftir af leiktímanum.

Segja má að bæði lið hafi kastað frá sér unnum leik á lokasekúndunum. Hattarmenn klúðruðu sókn og þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum brunuðu Þórsarar af stað í sókn stigi undir, 68-67. Jarrell Crayton sótti víti og kom gestunum yfir 68-69 með að setja bæði skotin ofan í.

Hattarmenn fóru í sókn og náðu að opna fyrir þjálfarann og einn reyndasta leikmann liðsins, Viðar Örn Hafsteinsson, við þriggja stiga línuna. Hann fékk hins vegar dæmd á sig skref við að fara framhjá varnarmanni Þórs.

Þegar sókn Þórs hófst voru 11,8 sekúndur eftir af klukkunni. Nákvæmlega átta sekúndum síðan var dæmt víti og Gerald Robinson, besti maður Hattar í kvöld, fékk sína fimmtu villu og varð að fara að velli. Fyrra víti Sveins Blöndals geigaði en það seinna datt ofan í og Þórsarar komnir með tveggja stiga forskot, 68-70.

Eftir körfu er tekið innkast við endalínu varnarliðsins. Hafi tíminn verið stoppaður, eins og gert er í vítum, er hann ekki settur af stað fyrr en fyrsti maður inni á vellinum grípur boltann.

Viðar Örn tók innkastið og grýtti því fram á Eystein Bjarna Ævarsson á miðjunni. Hann horfði í kringum sig, sem kostar dýrmætan tíma við þessar aðstæður og henti boltanum út til hægri á Andrés sem var við þriggja stiga línuna. Liðsfélagar hans kölluðu á hann að skjóta og Andrés stökk upp, vel fyrir utan þriggja með varnarmann í andlitinu og henti boltanum frá sér.

Áhorfendur á Egilsstöðum og þeir sem sátu á bekkjum liðanna héldu niður í sér andanum í þau sekúndubrot sem boltinn flaut í gegnum loftið. Síðan bergmálaði húsið af öskrum heimamanna og liðsfélagar Andrésar hentu sér ofan á hann í hrúgu í taumlausum fögnuðu en Akureyringar stóðu og bölvuðu því þeir trúðu ekki því gerst hafði.

Það er á hreinu að í 39 mínútur hafa verið spilaðir skemmtilegri körfuboltaleikir á Egilsstöðum en í kvöld. Leikurinn einkenndist af sterkum vörnum og frekar slökum sóknum. Fyrstu sjö mínúturnar skoruðu Þórsarar ekki nema tvö stig en rönkuðu við sér í lok fyrsta leikhluta.

Höttur leiddi 19-9 eftir hann og 35-25 í hálfleik. Þórsarar spiluðu ágætlega í þriðja leikhluta og unnu upp forskot Hattar sem var ekki nema þrjú stig, 48-45, að honum loknum. Þeir jöfnuðu í 51-51 og komust yfir strax í kjölfarið 53-55 eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik. Það sem eftir var skiptust liðin á forskotinu allt fram að síðasta skoti.

Gerald Robinson skoraði 24 stig fyrir Hött í kvöld og Eysteinn Bjarni Ævarsson 21. Hreinn Gunnar Birgisson tók tíu fráköst. Jarrell Crayton skoraði 24 stig fyrir Þór og Ólafur Aron Ingvason 21.

karfa hottur thorak 03032014 0007 webkarfa hottur thorak 03032014 0011 webkarfa hottur thorak 03032014 0019 webkarfa hottur thorak 03032014 0030 webkarfa hottur thorak 03032014 0036 webkarfa hottur thorak 03032014 0041 webkarfa hottur thorak 03032014 0046 webkarfa hottur thorak 03032014 0049 webkarfa hottur thorak 03032014 0052 webkarfa hottur thorak 03032014 0056 webkarfa hottur thorak 03032014 0057 webkarfa hottur thorak 03032014 0064 webkarfa hottur thorak 03032014 0065 webkarfa hottur thorak 03032014 0075 webkarfa hottur thorak 03032014 0076 webkarfa hottur thorak 03032014 0085 webkarfa hottur thorak 03032014 0086 webkarfa hottur thorak 03032014 0098 webkarfa hottur thorak 03032014 0106 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.