Íþróttir helgarinnar: Ístölti og frjálsíþróttamóti frestað vegna veðurs

istolt 2013 0055 webBúið er að ákveða að fresta Ístölti Freyfaxa og Ávaxtamóti UÍA í frjálsíþróttum sem halda átti á morgun vegna slæms veðurútlits. Beðið er með ákvörðun um leiki Þróttar og HK í blaki.

Ístöltinu hefur verið frestað um viku eða til 1. mars. Það átti að halda á Móavatni við Tjarnarland á Fljótsdalshéraði á morgun.

UÍA ætlaði að halda frjálsíþróttamót fyrir keppendur 10 ára og yngri á Fáskrúðsfirði á morgun en því hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Í samtali við Austurfrétt sagði Sandra María Ásgeirsdóttir, framkvæmdastýra UÍA, að margir foreldrar hefðu haft samband í morgun og viðrað áhyggjur af veðri og færð á morgun. Í framhaldinu hafi verið ákveðið að fresta mótinu.

Ekki er ljóst hvenær leikir Þróttar og HK í Mikasa-deild kvenna í blaki verða leiknir. Hluti HK-liðsins kom með flugi austur í Egilsstaði í hádeginu en þaðan eru allar leiðir ófærar.

Afgangurinn af hópi HK og nokkrir leikmenn Þróttar eru væntanlegir með flugi síðar í dag. Til stóð að leika í kvöld og á morgun en til vara er gengið út frá því að leikið verði á laugardag og sunnudag.

Höttur á leik gegn Vængjum Júpíters í fyrstu deild karla í körfuknattleik. Leikurinn á að fara fram í Grafarvogi klukkan 20:30 í kvöld.

Mikil snjókoma og hvassviðri hafa skapað ófærð á Austurlandi í dag. Ófært er um Oddsskarð, Fagradal, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og fyrir Heiðarendann. Ófært hefur verið yfir Fjarðarheiði í gær og í dag. Þungfært er til Borgarfjarðar og snjóþekja á öðrum vegum.

Veðurstofan spáir norðaustan 13-18 m/s og snjókomu eða slyddu á Austfjörðum í dag. Draga á úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar