Ellefu tíma heimleið í tveimur tilraunum: Blakfólk þurfti að ýta snjóruðningstækinu

blakhopur snjomokstur webLeikmenn úr meistaraflokkum Þróttar Neskaupstaðar þurftu að beita handafli til að losa snjóruðningstæki sem fast var á Möðrudalsöræfum í gærmorgunn. Liðin þurftu tvær tilraunir sem tóku samtals um ellefu klukkutíma til að komast yfir öræfin og misstu af þorrablótinu í Neskaupstað.

Liðin voru á Akureyri um helgina þar sem seinni forkeppni bikarkeppninnar í blaki fór fram. Leikirnir voru búnir um miðjan dag og ætluðu menn þá að halda heim til að ná Kommablótinu.

„Allir höfðu tekið galla og skóflur með því vitað var að ófærðin gæti verið að stríða og tefja fyrir. Brunað var af stað á fimm jeppum og hópurinn klár í að takast á við næsta verkefni, að komast heim og ná blótinu," segir Hlöðver Hlöðversson, þjálfari karlaliðsins.

Hann segir að á leiðinni hafi verið rifjaðar upp sögur frá tímum Ólafs Sigurðssonar og Gríms Magnússonar þar sem blaklið Þróttar hafi verið leidd „í gegnum alla þá ófærð sem fyrir hefur fundist á þjóðvegum landsins."

Í þá daga hafi þeir og allir blakkrakkarnir verið gallaðir og með skóflur til að moka rútunni leið á keppnisstaði eða heim aftur að móti loknu.

Að þessu sinni varð hópurinn að snúa við á Biskupshálsi eftir að hafa komið að flutningabíl sem sat þar fastur. Fjórum tímum eftir brottförina var hópurinn kominn aftur til Akureyrar þar sem hann lét fara vel um sig um kvöldið.

Um klukkan tíu að sunnudagsmorgni var haldið aftur af stað. Færðin var enn afleit þótt búið væri að ryðja hluta leiðarinnar. Hópurinn ók þá fram á ruðningstæki Vegagerðarinnar sem sat fast í skafli

„Þá var gott að fá aðstoð tíu blakara með skóflur sem kunnu til verka frá fyrri tíð og mokuðu bílinn nokkuð lausan. En hópurinn lét ekki þar við sitja heldur ýttu tækinu með handafli til þess að ná að losa. Bílalestin fylgdi svo ruðningstækjum í Jökuldalinn og greiðfært þaðan og heim."

Hópurinn kom til Neskaupstaðar um klukkan fimm í gærkvöldi og í leifarnar frá Kommablótinu kvöldið áður.

Af leikjunum er það annars að frétta að kvennaliðið komst í úrslitakeppnina með því að vinna Stjörnuna 2-1 og KA og Þrótt Reykjavík 2-0. Þeir leikmenn liðsins sem búa í Reykjavík þurftu að breyta ferðaáætlunum sínum á föstudag þar sem flug til Akureyrar féll niður og keyra í staðinn. Það skipti reyndar ekki máli þar sem mótherjarnir í Stjörnunni komust ekki á áfangastað heldur og var leiknum því frestað um einn dag.

Karlaliðinu gekk ekki jafn vel og tapaði báðum sínum leikjum, 1-2 fyrir KA og 0-2 fyrir Þrótti Reykjavík. Ítarlegri frásögn af ferðinni og leikjunum má finna hér á vef blakdeildar Þróttar.

Hópurinn kátur eftir að búið er að losa snjóruðningstækið. Mynd: Matthías Haraldsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.