Skip to main content

Yfir og út á Seyðisfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. ágú 2025 17:25Uppfært 15. ágú 2025 17:25

Sigríður J. Stefánsdóttir, ein af fyrstu konunum í loftskeytanámi á Íslandi, hefur búið á Seyðisfirði síðan 1967 og varð síðasti starfandi loftskeytamaðurinn þar. Hún ólst upp í kringum báta og vélar á Suðurnesjum sem kveikti hjá henni áhuga á vélvirkjun. Loftskeytaþjónustan varð þó að hennar ævistarfi.


Sigríður er ættuð úr Vestur-Skaftafellssýslu en ólst upp í Njarðvík þar sem faðir hennar, sem var skipasmiður, stofnaði Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem er enn á sama stað. Umhverfið mótaði hana frá unga aldri. Eftir gagnfræðapróf fór hún til Danmerkur í lýðháskóla.

Hún hélt utan með gamla Gullfossi og varð svo sjóveik að hún „nánast bað um að verða kastað útbyrðis“. Sigríður útilokaði þess vegna alveg að hún ætti eftir að vinna á sjó. Síðar starfaði hún þó á nokkrum af þekktustu skipum landsins.

Áhugi á vélum


Sigríður skar sig úr fjölda ungra kvenna á sjötta áratugnum með óvenjulegum áhuga sínum á vélum. „Ég skal ekkert fullyrða um hvaðan sá áhugi kom en pabbi hafði þar mikil áhrif því hann var skipasmiður og mikið í kringum vélar og báta auðvitað.

Það hjálpaði líka að það var vélaverkstæði við slippinn þar sem ég eyddi nokkrum tíma en ég hafði þegar á þessum tíma verið töluvert með pabba í slippnum sjálfum að dunda hitt og þetta með honum. Til dæmis að mála báta fyrir vertíðir, þó reyndar ég hefði í lokin verið send á skrifstofuna í pappírsvinnu sem mér fannst hreint ekki eins gaman. En ég var mikið að snuddast þarna á verkstæðinu og fannst alltaf gaman að öllu sem þar var verið að sýsla. Vélar og tæki hafa alltaf heillað mig svo kúnstugt sem mörgum þótti það á þessum tíma.“

Lokaðar dyr opnuðu óvænt tækifæri


Vélvirkjadraumur Sigríðar rættist ekki þar sem konum var ekki hleypt í vélskóla á þeim tíma. Þess í stað opnaðist henni óvænt leið þegar hún starfaði á leigubílastöð í Keflavík og heyrði auglýsingu frá Loftskeytaskólanum.

„Mér fannst þetta forvitnilegt og ákvað að prófa að sækja um. Það er eins og mig minni að aðeins hafi verið prófað í þremur fögum: algebru, íslensku og ensku. Umsækjendur voru hátt í hundrað og þar af fjórar konur. Aðeins 24 komust inn og í þeim hópi vorum við allar stelpurnar, sem kom okkur þægilega á óvart. Þannig að ég byrjaði í náminu haustið 1961.“

Eftir fyrsta veturinn í náminu fékk Sigríður sumarstarf á Raufarhöfn ásamt annarri stúlku úr skólanum. Þar rak Landssíminn radíó og síldarradíó sem þær unnu við á þrískiptum vöktum um sumarið „Þarna vorum við þrjú, við stelpurnar og einn strákur, allt sumarið á þrískiptum vöktum því einn varð alltaf að vera á vaktinni. En ég skal nú viðurkenna að ég vissi varla hvar Raufarhöfn var á þeim tíma, þó að ég hefði heyrt að það væri nú töluvert fjör þar í bæ.“

Sjóveikur loftskeytamaður fer á sjóinn


Það sem var ótrúlegt við feril Sigríðar var að þrátt fyrir skelfilega sjóveikireynslu í Danmerkurferðinni, starfaði hún sem loftskeytamaður á skipum. Það gerðist eftir að skólabróðir hennar, sem var loftskeytamaður á Bakkafossi, bað hana um að leysa sig af.

„Þá hafði hann alls óvænt eignast þríbura og illa hægt að vera úti á sjó. Það var svo mitt fyrsta starf sem loftskeytamaður á skipi um tíma en þarna var ég í tæpt ár og kunni ég því vel, enda skipið afar fallegt og skemmtilegt um borð. Þarna staðfestist að hræðslan við sjóveikina var ástæðulaus, því ég fann ekki fyrir neinu á bakaleiðinni með Gullfossi í vondu veðri og ekki heldur á Bakkafossi og hef aldrei fundið henni fyrir síðan.“

Það var í gegnum það starf sem hún kynntist Austfjörðunum og Seyðisfirði sérstaklega en þar sótti Bakkafoss reglulega síld. „Þá heilsaði ég stundum upp á karlana hér í símstöðinni og kynntist þeim ágætlega. Nokkru síðar var ég á Bakkafossi í Húnaflóanum þegar stöðvarstjórinn hér kallaði í mig og sagðist þurfa að biðja mín. Þetta heyrðu allir í brúnni, uppnám varð og allir fóru að hlusta. En þá var þetta ekki bónorð í þeirri merkingu, heldur bráðvantaði hann mann á radíóið hér um sumarið. Þetta mun hafa vera árið 1964 og ég lét tilleiðast og var hér fram að áramótum það ár.“

Ísbjarnarhræðslan á Austurlandi


Leiðin lá síðan yfir á Goðafoss en þaðan til Neskaupstaðar í Nesradíó. Hún rifjar upp að þegar hafísinn var þéttur hafi Austfirðingar verið afar hræddir við ísbirni. „Í Neskaupstað tókum við alltaf veður úr Papey og það var móttakari úti í vitahúsi en þar bjó enginn og alltaf smá barningur að fara til og frá, því það þurfti reglulega að leiðrétta móttakarann. Sérstaklega var þetta vesen þegar mikill var snjórinn og alltaf var maður einn á ferð. Á þessum tíma var mikið talað um ísbirni og töluverð hræðsla við að mæta einum slíkum. Svo rammt kvað að þessum orðrómi að það fór alltaf um mann þegar fara þurfti út í vita að vetrarlagi.“

Árið 1967 settist Sigríður að á Seyðisfirði og festi sér íbúðarhús árið 1972. Hún lét af starfi árið 1973, var þá orðin móðir en enga pössun var að fá þannig hún gæti gengið vaktir. Þegar sonurinn var kominn á legg fór hún aftur að vinna og réði sig hjá Pósti og síma.

„Þá var notkun á morskerfinu dottin út og meginhlutverk okkar að sinna bílaradíóinu svokallaða. Svo breyttist þetta nokkuð hratt næstu ár á eftir og í lokin vorum við tæknilega orðin símritarar en ekki loftskeytamenn, áður en starf símritara datt út líka vegna tækniframfara. Lokahnykkurinn varð svo árið 2005, þegar Ritsíminn var seldur Póstinum, sem ekki vildi okkur eldra starfsfólkið með í kaupunum. Fáeinum árum síðar var ritsíminn úr sögunni.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.