Skip to main content

Walkersetur opnar í lok júlí

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2008 16:09Uppfært 08. jan 2016 19:18

Fræðasetur, tileinkað enska jarðfræðingnum George Walker, verður opnað í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík í lok júlí. Þar verður einnig hýst safn um Stefán Einarsson, prófessor í bókmenntum frá Höskuldsstöðum í Breiðdal.


„Þetta er snjöll hugmynd sem sameinar bæði hug- og náttúruvísindi,“ sagði Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður. Hann hélt erindi um Walker í Háskóla Íslands í seinustu viku. „Þetta er fræðslusetur og lyftistöng fyrir ferðaþjónustu. Með opnun setursins verður tekið fyrsta skrefið í langri vegferð sem vísar út í umhverfið.“

 

Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, er einn helsti hvatamaðurinn að setrinu. „Við höfum eiginlega smyglað Walker inn í kaupfélagshúsið. Hann var kennari minn og arfleiddi mig að teikningunum að Breiðdalsvíkureldstöðinni. Eftir að hann lést ræddi ég við ekkju hans og dóttur sem voru opnar fyrir setri í hans nafni.“

Til stendur að setrið verði í samstarfi við Háskólann á Akureyri og erlenda skóla. „Það verður fundur í sendiráðinu í Lundúnum í næstu viku.“

 

Walker skrifaði ritgerð um Breiðdalseldstöðina, fyrstu stóru ritgerðina um megineldstöð árið 1963. Hann vann í fleiri sumur að jarðfræðirannsóknum á Íslandi, einkum Austurlandi. Þversniðsrannsóknir frá honum komu meðal annars að góðum notum við hönnun Fáskrúðsfjarðarganga. Walker varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1988.