Vopnaskak í endurnýjun lífdaga eftir aukna áherslu á fjölskylduskemmtun
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. júl 2025 10:20 • Uppfært 10. júl 2025 10:20
Dagskrá bæjarhátíðarinnar Vopnaskaks á Vopnafirði fer á fullt með hagyrðingakvöldi sem fylgt hefur hátíðinni svo að segja frá upphafi. Fjölskyldutónleikar í miðbænum, sem haldnir voru í fyrsta skipti í fyrra, draga margt fólk að hátíðinni.
„Hátíðin hefur verið haldin í rúm 30 ár. Á henni höfðu alltaf verið mörg böll en í fyrra breyttum við þeim yfir í stórtónleika og meiri fjölskyldustemmingu. Með því lögðum við meiri áherslu á miðbæjarstemmingu og við höldum í hana,“ segir Íris Edda Jónsdóttir, sem stýrir hátíðinni í ár.
Fyrsti dagskrárliður hátíðarinnar var í gær, opin handverksvinnustofa. Í dag bætist í dagskrána en í kvöld verður hagyrðingakvöld í Miklagarði. Sá viðburður hefur fylgt hátíðinni lengi sem og sumir hagyrðinganna sem taka þátt. „Þetta er mjög vinsæll og skemmtilegur viðburður,“ segir Íris Edda.
Í dag opnar líka sýning í Kaupvangi sem Minjasafnið á Bustarfelli hefur gert um Oddnýju Aðalbjörgu Methúsalemsdóttur. Oddný fæddist að Bustarfelli árið 1891 en giftist í Ytri-Hlíð og var jafnan kennd við þann bæ. Oddný var mikil hannyrðakona og óf meðal annars rúmteppi, veggstykki, gluggagjöld, handklæði og fleira í frægum vefstól sínum. Oddný var líka mikil ræktunarmanneskja og stofnaði meðal annars skógræktarfélag með skólabörnum á Torfastöðum. Hún var meðal stofnenda Kvenfélags Vopnafjarðar og fékk fálkaorðuna fyrir störf að framfaramálum árið 1964.
Á föstudag verður tónlistarkvöld með tónlistarfólki frá Vopnafirði en á laugardag fjölskylduskemmtun um daginn og síðan tónleikar þar sem fram koma Bríet, Matti Matt og Helgi Björns.
Þar með er fylgt eftir breytingunni frá í fyrra sem virðist hafa lukkast vel miðað við stóraukna aðsókn að hátíðinni. „Það voru margir sem komu að og tjaldsvæðin hér fylltust þannig að það myndaðist mikil stemming. Veðrið var mjög gott þá og spáin fyrir helgina er virkilega góð.“
Hátíðinni lýkur svo með Bustarfellsdeginum á sunnudag.
Mynd: Aðsend