Landsmót harmonikkufélaga trekkir fleiri en menn áttu von á í Reyðarfirði
Nokkuð stríður straumur fólks hefur verið í Reyðarfjörðinn frá því í gærdag og allan daginn í dag. Stór hluti þeirra líkast til að sækja Landsmót harmonikkufélaga sem fram fer um helgina og þegar er umferðin almennt meiri en skipuleggjendur áttu von á.
Hugsanlega hefur góð veðurspá síðasta sólarhring haft áhrif en að sögn Mörtu Guðlaugar Svavarsdóttur, eins skipuleggjenda Landsmóts Sambands íslenskra harmonikkufélaga á Reyðarfirði, er mun meiri umferð í bænum en menn hugðu fyrirfram. Kunnugir hafa áætlað að vel yfir fimm hundruð gestir séu komnir á staðinn.
„Ég hef nú ekki nákvæma tölu á þessu stigi en við getum sagt að það sé mun meiri umferð í bænum en ég átti von á og þegar eru fjölmörg stæði á tjaldsvæðinu upptekin. Sjálf vorum við ekki ýkja bjartsýn í byrjun vikunnar enda veðurspáin ekki ýkja góð en það virðist vera að rætast vel úr þessu og það eru mörg svæðin full eða að fyllast á tjaldsvæðunum.
Skipulagning þessa móts hefur tekið sinn tíma en Félag harmonikkuunnenda á Norðfirði hefur haft veg og vanda af allra skipulagningu mótsins. Við byrjuðum undirbúning þessa móts strax síðasta haust en þrátt fyrir það er eitt og annað að koma okkur á óvart núna þegar þetta er að skella á. Það er ýmislegt að koma upp á sem við sáum ekki fyrir í undirbúningsvinnunni sem var ekki hægt að spá fyrir um.“
Formleg dagskrá hefst ekki fyrr en í á morgun en alla dagskrána má finna hér. Hins vegar er hugmyndin að taka lítils háttar forskot á sæluna með samkomu á tjaldsvæðinu í kvöld.
„Já, þessi formlega dagskrá hefst á morgun en það er svona hittingur planaður á tjaldsvæðinu á Reyðarfirði í kvöld klukkan 20. Ekkert formlegt heldur langar okkur bara að hittast, spila og syngja og hafa gaman saman svona í útilegustemmningu og þangað eru allir velkomnir.“