Skip to main content

„Við getum ekki haldið því fram að við vitum ekki að eldið hafi áhrif á villta laxinn"

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2025 16:50Uppfært 25. apr 2025 16:51

Villti Atlantshafslaxastofninn hefur skroppið saman um tvo þriðju á heimsvísu, þrátt fyrir að aldrei hafi verið jafn mikið til af löxum í matvöruverslunum. Á sama tíma og laxeldi vex hratt á Austfjörðum og víðar, varar Dr. Rasmus Lauridsen, yfirmaður vísindamála hjá Six Rivers Iceland, við alvarlegum afleiðingum eldisins á villta stofninn og krefst þess að við lærum af reynslu annarra þjóða.

Fækkun Atlantshafslaxastofnsins er óleyst ráðgáta


„Við höfum misst tvo þriðju hluta af heimsstofninum. Það þýðir ekki að fiskurinn sé útdauður í tveimur þriðju hlutum ánna, en honum hefur fækkað verulega í mörgum ám og jafnvel horfið úr sumum,“ segir Rasmus. Hann flutti til Vopnafjarðar fyrir tæpum tveimur árum ásamt fjölskyldu sinni til að vinna að verndun laxastofnsins. Áður var laxinn útbreiddur um alla Evrópu en hefur horfið úr mörgum ám, sérstaklega eftir iðnbyltinguna.

„Staðir eins og Ísland, einkum Norðausturland, eru á meðal þeirra fáu svæða þar sem laxastofnar eru enn nokkuð sterkir. Fækkun laxa á heimsvísu hefur ekki enn haft mikil áhrif á þetta svæði, eins og það hefur haft á suðlægari Atlantshafslaxa, í löndum eins og Bretlandi og Frakklandi.“

Ótrúlegt ferðalag laxanna og áskoranir sem þeir mæta


Laxar hefja ferð sína í ám, vaxa þar og undirbúa sig fyrir víðáttumikið hafið. Þegar þeir snúa aftur, synda þeir gegn straumnum til að finna fæðingarstað sinn. „Þeir eru að reyna að finna réttan stað en tekst það ekki alltaf í fyrstu atrennu. Svo þeir leita aftur. Þessir fiskar stefna ekki bara í eina átt. Þeir þurfa að finna leiðina að því sem þeir telja vera heimili sitt. Atlantshafslaxar eru mjög góðir í að finna aftur ána sína, en sumir þeirra villast. Við viljum að meirihlutinn komi aftur í heimaána, því þar hafa þeir aðlagast.“

Á ferðalagi sínu þurfa laxarnir að forðast mörg rándýr. „Stærri laxar, og sérstaklega stærri urriðar, éta minni laxa og urriða. Þeir eru kjötætur og hugsa sig ekki um tvisvar. En við höfum einnig fugla og minka sem éta fiska. Við vinnum að því að halda minkastofninum í skefjum. Minkar voru fluttir til Íslands vegna skinnanna, en sumir sluppu. Þeir eru ættaðir frá Norður-Ameríku, en nú getur þú fundið minka um allt Ísland. Á veturna nærast þeir aðallega á fiski,“ útskýrir Rasmus.

Frá áhugamáli til starfsferils: Ást á fiski frá unga aldri


Rasmus Lauridsen varð ástfanginn af veiði þegar hann var aðeins sex ára. Það sem byrjaði sem áhugamál forvitins barns varð fljótt að ævistarfi. „Mamma vildi að ég yrði læknir. Ég sagði: „Ég vil ekki umgangast sjúklinga alla daga.“ Og pabbi vildi að ég yrði sagnfræðingur. Ég sagði: „Nei. Ég held að ég hafi ekki haft mikinn áhuga á því.“ En ég var alltaf heillaður af náttúrunni og samspili hluta í henni.“

Eftir meistaragráðu í líffræði frá Danmörku og doktorsgráðu í vistfræði straumvatna í Bretlandi, rannsakaði hann laxa og urriða í Englandi áður en hann réði sig til Six Rivers Iceland. Starfið er árstíðabundið – hann eyðir sumarmánuðunum í að safna sýnum úr ánum, allt að 12 tíma á dag, en vetrarmánuðirnir fara í gagnagreiningu og skrifstofuvinnu.

Laxeldi: Upphaflega talið björgun en reynst ógn


Ein af stærstu áhyggjum vísindasamfélagsins er vöxtur laxeldis. Þó upphaflega hafi verið talið að laxeldi myndi draga úr veiðum á villtum laxi, hefur það reynst hættulegt fyrir villta laxa. „Þeir sem flýja, fara í ár í nágrenninu og eignast þar afkvæmi. Þeir makast ekki bara innbyrðis, heldur líka við villtu laxana. Það sem gerist þá er að gen úr eldislaxi fara inn í genasafn svæðisins. Vegna þess að þeir eru ekki jafn vel aðlagaðir að villtu umhverfi, þeir hafa aðlagast lífi í fiskeldi í margar kynslóðir, þynna þeir út gæði genanna í ánum.

Þetta er mikið áhyggjuefni vegna þess að þessir fiskar þurfa að vera aðlagaðir að sínu staðbundna umhverfi. Í síkvikum heimi, held ég að það sé enn mikilvægara að þeir séu vel hæfir til að takast á við umhverfi sitt. Ef genin í stofninum verða verri getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar á bara nokkrum kynslóðum.“

Þar að auki verða fiskeldisstöðvar oft uppspretta sníkjudýra eins og laxalúsar, sem breiðist út í náttúruna. „Næstum 40 árum eftir að laxeldi hófst í Noregi, eru afleiðingar eldisins á villta laxinn orðnar mjög augljósar. Ekki bara á laxinn, heldur einnig á bleikju og urriða. Það eru ekki bara laxar sem þjást, heldur einnig áll og sjóurriði.

Eftir á að hyggja held ég að fólk hefði getað hugsað út í þessar afleiðingar, en það var ekki gert. Hér á Íslandi ættum við að nýta þá miklu þekkingu sem Norðmenn hafa aflað á áhrifum fiskeldis af áratuga reynslu. Þess vegna getum við alls ekki haldið því fram að við vitum ekki að þetta fiskeldi mun hafa áhrif á villta laxastofna.“

Hnúðlax: Framandi innrás sem ógnar jafnvægi vistkerfa


Auk eldislaxa hefur önnur framandi tegund, hnúðlax, einnig fundið sér leið inn í íslenskar ár. Þessi fiskur, sem kemur upphaflega úr Kyrrahafinu, barst til norðurhluta Atlantshafs eftir að Rússar fluttu hann inn í Hvítahaf á sjöunda áratugnum.

„Árið 2017, breyttist eitthvað. Hnúðlaxinn hafði verið til staðar í mörg ár, en í mjög litlu magni. Hins vegar árið 2017 kom gríðarlegur fjöldi af hnúðlaxi í árnar, sérstaklega í norðurhluta Noregs en við sáum þá jafnvel í ám allt suður til Englands," segir Rasmus.

Þó áhrif hnúðlaxins séu ekki að fullu þekkt, bendir Rasmus á að þeir séu sérlega árásargjarnir. „Þeir hafa tilhneigingu til að dvelja í neðri hlutum árinnar, þar sem þeir safnast saman í stórum hópum og ráðast á aðra fiska. Við vitum að Atlantshafslöxum, sem koma aftur á svipuðum tíma, finnst ekki gaman að vera í kringum þessi svæði. Þeir fara frekar lengra upp í ána eða jafnvel fara alveg eftir að hafa verið áreittir.“

Mörg verkefni Six Rivers


Six Rivers Iceland vinnur að mörgum verkefnum til að vernda villta laxastofninn. Þau vinna með nærsamfélaginu, sem býr yfir ómetanlegri staðbundinni þekkingu á ánum og loftslaginu. Eitt stærsta verkefnið er umfangsmikil skógrækt meðfram árbökkum. Þegar hefur 300.000 trjám verið plantað og áætlanir eru um að planta öðru eins í ár en langtímamarkmiðið er að gróðursetja um milljón tré árlega.

„Við gerum þetta vegna þess að við viljum reyna að auka framleiðni ánna. Þar sem tré vaxa hægt á Norðausturhluta Íslands líður langur tími áður en við skynjum ávinninginn af þessu. Þessi tré skapa líka örvistkerfi, þar sem skordýra- og fuglalíf verður fjölbreyttara. Við vitum að sumt úr þessum landvistkerfum, eins og skordýr, lirfur, ormar og svo framvegis, mun detta ofan í ána og verða að fæðu fyrir fiskinn.“

Mikilvægt að skilja hvað skilar mestum árangri


„Ég sé fyrir mér að það sem við gerum muni á næstu fimm árum hjálpa okkur til að skilja betur hvar við getum haft jákvæðust áhrif á þessa stofna. Það er mikilvægt að hafa alltaf í huga að líftími laxa á Norðausturlandi er venjulega fimm til sjö ár. Þannig að jafnvel til að hafa áhrif innan einnar kynslóðar, verðum við að muna að það sem þú gerir í dag leiðir ekki til þess að fleiri fullorðnir laxar komi aftur á morgun eða á næsta ári. Þetta tekur tíma.

Það er mikilvægt starf í gangi til að hjálpa þessum fiski, en við þurfum virkilega að einbeita okkur að því hvar við höfum mest áhrif. Hvernig getum við best hjálpað þeim? Og ég trúi því að á næstu fimm árum munum við vita miklu meira um það,“ segir Rasmus bjartsýnn.

„Ég elska að vera úti í náttúrunni," segir Dr. Rasmus að lokum. „Það er ástæðan fyrir því að ég byrjaði í þessu starfi, mér finnst gaman að skilja hvernig vistkerfin virka. Svo nýt ég þess að vera hér. Ég elska að vakna á morgnana og sjá fjöllin.“

Mynd: Marko Umicevic

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.