Skip to main content

Vestfirskir og austfirskir refir sýna af sér ólíka hegðun

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. júl 2025 17:36Uppfært 15. júl 2025 17:37

Vísbendingar eru um að íslenski refurinn gæti verið af mismunandi vistgerðum eftir landshlutum og takmarkaður samgangur sé á milli þeirra. Mismunandi fæðuval og fleira styður þessa tilgátu. Alþjóðlegt rannsóknarverkefni er nú í gangi til að kanna þennan breytileika nánar.


„Íslenski refurinn er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Hann settist hér að fyrir mörg þúsund árum þegar landið kom undan hafísjöklinum og var því hér þegar landnemarnir komu.

Fuglar hafa væntanlega verið komnir áður því forsenda refsins til að setjast hér að er að hann hafi haft eitthvað að éta allt árið um kring," segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sem leiðir stórt alþjóðlegt verkefni um rannsóknir á íslenska refastofninum en hlut af rannsóknahópnum var á Breiðdalsvík í vor.

Ester bendir á að refurinn hafi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku vistkerfi frá landnámi og hafi verið bæði auðlind vegna feldsins og samkeppnisaðili við menn um fæðu.

Vestfirskir og austfirskir refir sýna ólíka fæðuhegðun og eiginleika


Rannsóknir sýna að fæðusamsetning refa er mismunandi eftir landshlutum. „Þegar stofninn óx eða minnkaði á Austurlandi virtist refurinn þar éta meira af landrænni fæðu svo sem rjúpu, gæsum, fuglum, músum og stórum spendýrum, líklega hreindýrum. Á sama tíma virðist refurinn á Vestfjörðum mest éta sjófugla og sjávarfang og lítill breytileiki var í fæðuvali hvort sem refum fjölgaði eða fækkaði,“ útskýrir Ester.

Vestfirskir refir eru einnig með mengunarefni eins og kvikasilfur sem varla mælist í austfirskum refum, og eyrnasýking af völdum mítla finnst eingöngu í vestfirskum refum.

Erfðagreining og GPS merking til að staðfesta mismunandi vistgerðir


Í verkefninu eru borin saman gögn frá Austfjörðum, Vestfjörðum og Suðvesturlandi til að greina hvort um sé að ræða aðskildar vistgerðir. Erfðasamsetning refa af þessum svæðum er nú greind til að bæta mat á stofnstærð eftir landsvæðum.

„Við erum að kanna hvort það séu ákveðnar vistgerðir refa innan landsins sem eru einangraðar og aðlagaðar að ólíku umhverfi og því fæðuframboði sem þar er, ásamt því hversu takmarkaðar samgöngur eru þar á milli,“ segir Ester.

Næsta skref verkefnisins er að setja GPS senditæki á refi, sem gefur nákvæmari upplýsingar um ferðir þeirra. „Í raun eru senditækin lykilatriði til að geta gengið úr skugga um hvort hér séu raunverulega aðskildar stofngerðir þegar lagt er mat á stofnstærð innan ólíkra landsvæða," útskýrir Ester.

Mikilvægt samstarf við veiðimenn og sveitarfélög


Samstarf við veiðimenn er verkefninu nauðsynlegt. Rannsóknin þarf 15-20% af veiddum refum í hverju sveitarfélagi, ásamt mikilvægum upplýsingum um greni og veiðar.

„Við höfum kallað eftir því að öll greni sem leitað er á séu skráð, ekki bara þau þar sem eitthvað finnst. Núllin eru líka mikilvæg gögn," segir Ester og bætir við að sveitarfélög geti gert meira til að styðja við veiðimenn sem taka þátt í rannsóknum, enda greiða þau samtals um 100-120 milljónir á ári fyrir grenjavinnslu.

Fjórir fulltrúar verkefnisins voru í Breiðdal á vinnufundi í síðustu viku. Frá vinstri: Nicolas Lecomte prófessor frá Háskólanum í Moncton í Kanada, Anna Bára Másdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, Bruce McAdam, tölfræðingur frá Skotlandi og Ester Rut Unnsteinsdóttir frá Náttúrufræðistofnun. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.