Skip to main content

Velheppnuð leitarhundapróf Landsbjargar í Oddsskarði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. mar 2025 13:24Uppfært 18. mar 2025 16:51

Einir þrettán hundar og eigendur þeirra eyddu fjórum dögum á skíðasvæðinu í Oddsskarði fyrir skömmu en það var liður í æfingum og prófum fyrir leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hópurinn naut góðrar aðstoðar björgunarsveitarfólks af Austfjörðum.

Dagskráin stóð yfir í eina fjóra daga, frá fimmtudegi til sunnudags, og fengu menn „næstum“ of gott veður allan tímann. Hundateymin komu alls staðar að en dómarar á svæðinu voru bæði erlendir og íslenskir.

Fram kemur á vef björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað að vart hefði verið hægt að halda slíkt námskeið án góðrar hjálpar krakka úr unglingadeild Gerpis sem höfðu það verkefni að grafa sig í fönn og bíða þess að finnast. Óumdeilt er að leitarhundar eru gríðarlega mikilvægir ef finna þarf fólk sem lent hefur í snjóflóðum.

Tveir leitarhundar af Austurlandi fengu A-einkunn að þessu loknu en það er hæsta einkunn sem gefin er. Þar annars vegar tíkin Blika í umsjón Stefáns Karls í Neskaupstað og tíkin Díva frá Breiðdalsvík sem er í eigu Sólveigar Lilju Ómarsdóttur. Þá tók þátt nýr hundur Björns Óskars Einarssonar frá Reyðarfirði og hlaut hann C-einkunn.

Myndin sýnir hluta þátttakenda auk hunda sinna en glöggt má sjá hversu fallegt veður mannskapurinn fékk og var svo meira og minna alla fjóra dagana. Mynd Gerpir