Skip to main content

Velheppnuð fyrsta sameiginlega félagsmiðstöðvaopnun Fjarðabyggðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. mar 2025 09:17Uppfært 19. mar 2025 09:22

Eftir köll og óskir um áraraðir fór fyrsta sameiginlega félagsmiðstöðvaopnunin í Fjarðabyggð fram síðastliðið föstudagskvöld og bar á mikilli ánægju ungmennanna með fyrirkomulagið. Slík opnun verður einu sinni í mánuði fram á vor.

Allt fór fram í íþróttahúsinu á Reyðarfirði en þangað voru komu saman ungmenni úr öllum félagsmiðstöðvum sveitarfélagsins til að eiga góða stund saman. Rútur óku þeim til og frá sínum byggðakjörnum og var almennt mikil ánægja með hvernig til tókst og mörg ný sambönd tókust með ungmennunum.

Kvöldið var fjölbreytt en eftir að deildarstjóri frístunda barna og unglinga hjá Fjarðabyggð hafði boðið alla velkomna hófst dagskrá sem samanstóð af leikjum af ýmsu tagi; allt frá borðspilakeppni til brenniboltamóts.

Um tilraunaverkefni er að ræða af hálfu fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar en löngum hefur verið óskað eftir skemmtunum þar sem öll ungmenni úr öllum byggðakjörnunum gæti notið kvöldstundar saman.

Þó gnótt væri af leikjum og afþreyingu á föstudagskvöldið tóku ungmennin stundarkorn frá til að hægt væri að ná mynd af öllum hópnum. Mynd Fjarðabyggð