Skip to main content

Velheppnað opið hús í Lagarfossvirkjun

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. sep 2025 10:33Uppfært 15. sep 2025 10:39

Í fyrsta skipti frá því að Lagarfossvirkjun tók til starfa fyrir 50 árum síðan bauð rekstraraðilinn Orkusalan áhugasömum í heimsókn um helgina til að skoða þetta mikla og mikilvæga mannvirki og taldist mönnum til að milli 150 og 200 manns hafi rekið inn nefið og þegið veitingar.

Þó gestum og gangandi hafi um margra ára skeið boðist að heimsækja og skoða virkjunarhús aðila á borð við Landsvirkjunar hefur slíkt minna verið í boði frá öðrum framleiðendum raforku í landinu.

Rekstraraðili Lagarfossvirkjunar, Orkusalan, hefur nú tvívegis á skömmum tíma opnað virkjunarhús sín fyrir áhugasömum og í bæði skipti var gestafjöldinn meiri en ráð var fyrir gert fyrirfram. Það bæði í Skeiðafossvirkjun í Skagafirði og á gærdag í Lagarfossvirkjun.

Glöggt mátti finna ánægja með uppátækið meðal gesta enda ýmislegt að skoða, veitingar í boði og smáfólkið hafði úr ýmislegri skemmtun að velja með þeir eldri fengu fróðleik um þessa stærstu virkjun Austurlands áður en Kárahnjúkavirkjun tók til starfa.

Pálmi Sigurðsson, stöðvarstjóri, tók ásamt starfsfólki stöðvarinnar vel á móti gestum og ekki skemmdi að sólin sýndi sig lunga sunnnudagsins eftir töluverða rigningartíð að öðru leyti síðustu dægrin.

„Við erum afar ánægð með daginn og aftur vorum við að fá fleiri gesti til okkar að skoða en við sáum fyrir okkur. Það er verið að giska á að heildarfjöldinn hafi verið milli 150 og 200 manns og vel troðið í hvert stæði hér í grennd við stöðvarhúsið. Það líka gleðilegt að nokkur fjöldi fólks sem vann að byggingu virkjunarinnar á sínum tíma kom í heimsókn og nutu vel. Allt var þetta vel heppnað í alla staði.“