„Veit að þeir sem koma vilja það virkilega“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. ágú 2025 12:06 • Uppfært 05. ágú 2025 12:10
Stefán Bogi Sveinsson hefur síðan í byrjun júlí lesið ljóð í rjóðri í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum á átta daga fresti. Upplestraröðin ber hið óþjála nafn „Ljóðaviðburðurinn sem enginn bað um og enginn þarf að mæta á en allir eru velkomnir.“ Ljóðaunnandinn hefur löngum haft áhuga á að glæða garðinn lífi.
„Stutta svarið við spurningunni um af hverju ég er að þessu er að mig langaði til þess. Ég stillti dæminu þannig upp að ég væri að þessu fyrir sjálfan mig og ef aðrir hafa áhuga á að njóta með þá er það gott, en ekki nauðsynlegt.
Síðan fylgja einhverjar háleitari hugmyndir um að auka veg ljóðsins og gefa fólki færi á að taka frá tíma til þess. Mig grunar að margir hafi ánægju af ljóðum án þess að gefa þeim tíma eða pláss.
Ég ákvað að hafa þetta strembið. Rjóðrið er eilítið afvikið, svo fólk þarf að hafa fyrir því að finna mig. Síðan er þetta á átta daga fresti þannig að upplesturinn er aldrei á sama degi. Eins er þetta seint að kvöldi. Fyrir vikið veit ég að þeir gestir sem koma vilja það virkilega,“ segir Stefán Bogi.
Hann hefur verið með það fast að lesa fyrst tíu ljóð: fyrst eitt ljóð eftir fjögur skáld önnur en hann sjálfan, síðan þrjú eftir sjálfan sig, þá tvö ljóð eftir annað skáld og loks óbirt ljóð eftir sjálfan sig. Eftir það gefst áheyrendum færi á að koma fram. „Það hefur alltaf einhver lesið, hvort sem er frumort ljóð eða eftir annað skáld. Í öllum tilfellum hefur þetta orðið ljúf og góð stund.“
Löngum fært líf í Tjarnargarðinn
Stefán Bogi þekkir vel til garðsins, hann starfar í Safnahúsinu í jaðri hans sem héraðsskjalavörður. „Þessi viðburður er innblásinn af garðyrkjustjóra Múlaþings sem tvö ár í röð kom til að ræða við okkur í Safnahúsinu og benda á að þarna væri góður staður fyrir litla viðburði, eins og upplestur.“
Stefán Bogi sat í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, forvera Múlaþings, í tíu ár og sem slíkur kom hann að því að frisbígolfvöllur var settur í Tjarnargarðinn til að glæða hann lífi. „Það kemur fólk jafnt og þétt í frisbígolfið yfir sumarið þannig það þjónaði sínum tilgangi. Síðan hefur bæst við ærslabelgur og sviðið verið endurnýjað þannig að nýting garðsins er alltaf að batna.
Ljóðaviðburðurinn er enn ein ábendingin um hvernig hægt er að nota hann og gengur fullkomlega upp þótt þarna séu líka krakkar á belgnum og fólk á ferð.“
Stefán Bogi las vikulega í júlí þannig viðburðurinn í kvöld er sá fimmti í röðinni. Hann mun síðan lesa næstu tvær vikur. Ljóðalesturinn byrjar klukkan 21:00.