Skip to main content

Vandasamt verkefni að skapa heillandi miðbæ

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. júl 2025 16:22Uppfært 04. júl 2025 09:39

Skipulag og uppbygging miðbæjar var umræðuefni á málþingi sem Eygló og Austurbrú stóðu fyrir á Reyðarfirði nýverið, en þar sem víðar á Austurlandi er verið að skipuleggja eða efla miðbæi.


Eitt dæmið um það er á Vopnafirði þar sem verndarsvæði í byggð var staðfest nýverið fyrir elsta hluta kaupstaðarins, en hann er jafnframt miðbærinn. Þar hefur verið unnið nýtt skipulag.

„Fólkið í Vopnafirði var haft með í ráðum og við vorum ófeimnir við að leita álits þeirra við skipulagsvinnuna. Til viðmiðunar höfðum við gamlar ljósmyndir, frá miðbæjarsvæðinu, sem við tókum mið af. Í grunninn tekur nýja skipulagið mikið mið af gamla tímanum en við erum samt ekki að loka neinum dyrum á nýja hluti.

Gamlar byggingar halda sér og gamla bæjarmyndin fær að ráða að mestu. En skipulagið gerir ráð fyrir nýjum lágreistum byggingum í og með til að og ramma svæðið við sjávarsíðuna betur inn,“ sagði Gunnar Ásgeirsson, sem unnið hefur með Vopnfirðingum.

Góð samvinna við sveitarfélög lykilþáttur


Róbert Óskar Sigvaldason hefur tekið þátt í byggingaverkefnum á Austurlandi í gegnum félagið R101 ehf. Hann er eigandi Hermes, eins sögufrægasta húss Reyðarfjarðar og hefur gert það upp frá grunni, en húsið er hluti af miðbæjarsvæði Reyðarfjarðar.

Líkt og margir aðrir hefur Róbert ákveðnar hugmyndir um uppbyggingu miðbæjar en hann fór í sínu máli yfir það hversu mikilvægt samstarf og samvinna við sveitarfélagið er þegar unnið er með eldri hús á miðbæjarsvæði. Í hans tilfelli sagði hann samvinnuna hafa gengið afar vel í gegnum endurnýjun Hermes og í því ferli hafi ýmsum hugmyndum verið kastað á milli, sem hugsanlega verða að einhverju þegar fram líða stundir.

Raunhæfar áætlanir um hvers konar rekstur beri sig


Á fundinum voru einnig nefnd dæmi annars staðar frá. Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns, sagði frá nýjum miðbæ Selfoss sem er í gömlum stíl. Fyrstu byggingarnar þar eru tilbúnar en fleiri eru enn eftir.

Þar, líkt og á Austurlandi, er gríðarlegur munur á gestakomum eftir árstíðum og því þarf að kafa djúpt ofan í hvers kyns tækifæri sem eru til staðar. Vignir sagði ekki duga að henda upp kaffihúsum eða veitingastöðum og vona það besta, heldur þurfi skýra raunhæfa áætlun en ekki óskhyggju.

Þar hafi mikil vinna farið í að greina hvers kyns starfsemi gæti þrifist til lengri tíma og til að auka líkurnar á að dæmin gangi upp eru allar leigutekjur Sigtúns í nýja miðbænum veltutengdar. Þannig deilist áhættan niður og báðir aðilar hagnast ef vel gengur. Það hefur gengið vel hingað til, að sögn Vignis, en þessi kostur er auðvitað töluvert dýrari til að byrja með en hefðbundnar leiðir með langtímaleigu.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.