Úr hávaðanum og hraðanum í París í friðsældina á Fáskrúðsfirði
Frakkinn Nicolas Jaeck vissi ekkert um söguleg tengsl Fáskrúðsfjarðar við Frakkland þegar hann flutti til fjarðarins, ásamt eiginkonu sini Jaeck, fyrir níu árum. Það sem átti að vera tímabundið ævintýri utan um rekstur lítils gistiheimilis varð að framtíðarstað fjölskyldunnar sem endurbyggði gamalt hús, eignaðist dóttur og uppgötvaði hamingjuna upp á nýtt.
Nicolas starfaði hjá franska bílaframleiðandanum Renault sem vélaverkfræðingur áður en hann lagði í heimsreisu. „Ég húkkaði mér far frá Frakklandi til Taílands. Á þeim tíma voru Íran, Sýrland og Úkraína enn opin ferðamönnum,“ útskýrir Nicolas.
Ferðalagið var eftirminnilegt enda nýtti Nicolas verkfræðiþekkingu sína á frumlegan hátt. „Ég keypti reiðhjól af Þjóðverja sem hafði lokið ferðalagi sínu. Ég nýtti mér þekkinguna úr vélaverkfræðinni, keypti dekk af barnahjólum og notaði bambusvið til að smíða kerru," segir hann og bætir við: „Ég hjólaði um Taíland, Malasíu og Indónesíu.“
Eftir ferðalagið sneri hann aftur til Renault, en fann að heimurinn hafði breyst fyrir honum. „Ég man að ég hugsaði: „Hvað er ég að gera hér núna?“ Ég hafði eytt hverjum einasta eyri sem ég átti, en það var það besta sem ég hafði gert.“
Óvæntur ástarsaga leiddi til Íslandsævintýris
Nicolas kynntist Ievu við óvenjulegar aðstæður í Aserbaídsjan árið 2010. „Fyrir tilviljun gerðist það að hann svaf á sófanum í íbúðinni þar sem hún bjó," segir í greininni. Þau hittust aftur í Georgíu þremur árum síðar, sem þau túlkuðu sem merki um að þeim væri ætlað að vera saman.
Eftir að hafa verið í fjarsambandi um tíma, lögðu þau drög að sameiginlegri framtíð. Á meðan Nicolas vann að því að kaupa gamlan sveitabæ með vinum sínum nálægt Strassborg, ákvað Ieva að prófa Ísland.
„Ég sé að þú ert fastur í áformum þínum um bæinn og öllu sem því fylgir. Á meðan ætla ég að hætta í vinnunni og fara til Íslands í nokkra mánuði,“ sagði hún við Nicolas. Upplifun Ievu af Íslandi varð svo jákvæð að þau ákváðu að kanna þann möguleika saman.
Húsið sem varð ævintýri út af fyrir sig
Þegar þau keyptu tæplega aldargamalt hús á Fáskrúðsfirði gerðu þau sér ekki grein fyrir umfangi framkvæmdanna sem beið þeirra. „Við keyptum húsið hér og byrjuðum á að endurnýja bílskúrinn. Við hugsuðum: „Allt í lagi, þessi bílskúr gæti verið gott fyrsta skref. Við breytum honum í litla íbúð.“
Verkefnið reyndist umfangsmeira en þau bjuggust við. „Við skiptum um gluggana, en allur viðurinn í kringum þá var grautfúinn, svo við þurftum að skipta um mikið timbur og styrkja húsið,“ útskýrir Nicolas. Upphaflega hugmyndin um gistiheimili þróaðist í annað verkefni þegar dóttir þeirra Milda fæddist.
Fjölskyldan stækkar og plönin breytast
Fæðing Mildu breytti öllu. Hún er nú fjögurra ára, talar þrjú tungumál reiprennandi og er með grunnþekkingu á ensku. „Það fyndnasta er að franska er auðveldasta málið af þeim þremur sem hún skiptir á milli,“ segir Nicolas.
Eftir fæðingu hennar ákváðu þau að búa sjálf í húsinu frekar en að breyta því í gistiheimili. „Við vorum að flýta okkur að laga þetta hús og reyna að finna út hvað okkar framtíðarstarf gæti verið og hvar við gætum búið,“ segir Nicolas. „Á einhverjum tímapunkti hugsuðum við bara: „Bíddu, lítum í kringum okkur. Það er virkilega gott að vera hér. Við erum í frábærum störfum. Við erum hamingjusöm. Dóttir okkar er ánægð." Svo við ákváðum að taka því rólega og lifa raunverulega íslensku lífi.“
Nýtt starf og nýtt samfélag
Nicolas starfar nú hjá Alcoa sem verkefnastjóri, þótt hann hafi áður unnið í hugbúnaðarþróun í Reykjavík. „Það var mjög erfitt í byrjun, ég var orðinn ryðgaður í verkfræðinni,“ segir hann um starfið hjá Alcoa.
Starfið hefur gert honum kleift að komast betur inn í samfélagið. Hann kann vel að meta öruggt og rólegt líf á Austfjörðum. „Mér finnst gott að þurfa ekki að sitja fastur í umferðarteppu á hverjum degi. Mér finnst gott að fjölskyldan mín er örugg hér. Mér líkar frelsið. Mér finnst gott hvað fólk er afslappað. Mér líkar líka virkilega vel kennslan sem dóttir mín fær í leikskólanum, allt hér er eins og draumur fyrir börn.“
Kostir og gallar lífsins á Íslandi
Nicolas segist stundum sakna fjölbreytninnar í Frakklandi, allrar afþreyingarinnar sem hægt er að velja úr. Það vegur hins vegar þungt hversu barnvænt Ísland er. „Þegar kemur að því að eignast börn, þá færðu hjálp hér. Þú færð eitt ár í fæðingarorlof til að hugsa um barnið þitt og það tengir þig virkilega við barnið þitt. Hér er frábært að bæði konur og karlar hafi jafnt fæðingarorlof því það dregur úr mismunun við ráðningar.“
Helsti ókostur lífsins á Íslandi er fjarlægðin frá fjölskyldunni í Frakklandi. „Það sem mér líkar ekki er að vera svo langt frá fjölskyldu minni. Ég fann ekki svo mikið fyrir því fyrir nokkrum árum, en ég fór virkilega að finna fyrir því þegar dóttir mín fæddist.“
Lengri útgáfa greinarinnar birtist áður í Austurglugganum.