Skip to main content

Upphaf að enn betri tímum í Nesskóla

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2025 11:09Uppfært 06. maí 2025 11:11

Stór áfangi náðist fyrir börn og starfsfólk Nesskóla í Neskaupstað um liðin mánaðarmót þegar skólinn fékk formlega viðurkenningu á að vera formlegur Byrjendalæsisskóli en til að ná þeim áfanga þarf að standast sérstaka úttekt Háskólans á Akureyri.

Ýmislegt hefur verið ritað um hrakandi lestrarfærni skólabarna á Íslandi undanfarin ár í kjölfar dapurra niðurstaðna í svokölluðum PISA-könnunum. Þær kannanir mæla getu skólabarna í stærðfræði, raunvísindum og lestri á þriggja ára fresti og samkvæmt síðustu niðurstöðunum 2023 reyndust aðeins 60% íslenskra barna búa yfir grunnfærni í lesskilningi. Það mikið lægra hlutfall en meðaltal allra annarra OECD-ríkja sem mældist 74%.

Breytt nálgun í kennslunni

Íslenskir skólar hafa því verið að leita lausna til að auka skilning og færni barnanna og fyrrnefnt Byrjendalæsi er verkefni sem gefið hefur góða raun að sögn Klöru Sigríðar Sveinsdóttur, umsjónarkennara í Nesskóla, sem leiðir það verkefni.

„Þetta er svona heilstæð kennsluaðferð sem byltir því töluvert hvernig við kennum lestur og skrif. Þetta snýst um að gera það á forsendum barnanna sjálfra en jafnframt gera það á spennandi hátt. Þetta byrjar í fyrsta bekk með stafina hvern fyrir sig en svo færum við okkur ofar strax í öðrum bekk og þá veljum við heppilegar bækur til lesturs og þar um að ræða venjulegar barnabækur frá bókasafninu en ekki hefðbundnar skólabækur. Svo veljum við okkur ákveðin lykilorð úr þeim bókum með áherslu á að þau auki orðaforða sinn. Sem dæmi þá er lykilorðið þessa vikuna orðið eldfjall. Í kjölfarið áttu börnin að finna sjálf orð sem byrjuðu á fj. Þetta kveikir strax hjá þeim áhuga og þau fara að hugsa hvaða orð það gætu verið og þau hér strax orðin nösk að hafa upp á orðum á eigin spýtur.“

Heilmikil fræði að baki

Foreldrar geta kynnt sér hugmyndina að baki verkefninu að fullu á vefnum Byrjendalæsi en sjálf segir Klara engan vafa leika á að þessi viðurkenning Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri sé gríðarlega mikilvægur áfangi. Fulltrúar frá þeirri miðstöð koma svo reglulega í heimsókn í skólann til að tryggja að allt sé eins og það á að vera.