Skip to main content

Unnar Vilhjálmsson sæmdur fálkaorðunni

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. jún 2025 12:44Uppfært 18. jún 2025 12:44

Unnar Vilhjálmsson var í gær sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íþrótta- og félagsstarfa með börnum. Unnar keppti á sínum tíma og starfaði fyrir Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA).


Unnar var á sínum tíma einn besti frjálsíþróttamaður landsins. Hann átti ekki langt að sækja hæfileikana, verandi sonur Vilhjálms Einarssonar, fyrsta verðlaunahafa Íslands á Ólympíuleikum.

Unnar ólst upp að hluta til upp á Egilsstöðum og gekk í Menntaskólann á Egilsstöðum. Hann keppti fyrir UÍA á hátindi ferils síns, þegar hann setti Íslandsmet í hástökki á Landsmóti UMFÍ árið 1984. Unnar stökk 2,12 metra og stóð met hans í fjögur ár.

Unnar varð síðar öflugur í austfirsku íþróttastarfi, sinnti frjálsíþróttaþjálfun á vegum UÍA auk þess að þjálfa körfubolta á svæðinu. Hann var um tíma eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Táps og fjörs á Egilsstöðum.

Unnar hefur undanfarin ár búið á Akureyri, kennt við Menntaskólann á Akureyri og þjálfað frjálsíþróttir hjá Ungmennafélagi Akureyrar. Hann var meðal fimmtán einstaklinga sem forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, sæmdi fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn.

Mynd: Embætti forseta Íslands