Skip to main content

Ungur athafnamaður selur sultu við aðalgötuna

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. des 2024 18:06Uppfært 10. des 2024 18:09

Ungur athafnamaður, Ívar Orri Kristjánsson, hefur undanfarin sumur selt rabarbarasultu úr garði sínum á Djúpavogi, til þeirra sem leið eiga um. Hann er á besta stað í bænum, beint á móti Kjörbúðinni og segist leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn verðbólgunni.


Þegar komið er niður Búland, götuna sem keyrt er eftir frá þjóðveginum niður að vogi, veita athugulir ferðalangar því eftirtekt að við gatnamótin á vinstri hönd er lítill fjólublár kofi, á stærð við fuglahús, festur á girðinguna sem veit að götunni.

Þetta er hins vegar ekki fuglahús heldur lítill sölu-, eða sjálfsafgreiðslukofi. Kofinn tilheyrir Ívari Orra, 11 ára Djúpavogsbúa, sem selur þar heimagerða rabarbarasultu.

„Þetta byrjaði á því að pabbi var að gera einhverja sultu og ég spurði hann hvort við ættum ekki að selja hana,“ útskýrir Ívar Orri, sem segir að hans framlag sé að tína rabarbarann úr garði fjölskyldunnar og skera, en faðir hans, Kristján Sveinn Ingimarsson, sjóði sultuna.

Kofinn er þannig að viðskiptavinir taka krukku úr kofanum og er treyst fyrir að skilja eftir andvirði hennar. Ívar Orri vonar að kaupendum líki sultan en segir að ekki hafi enn verið bankað upp á til að biðja um uppskriftina. „Ég er ekki heldur viss um að ég gæfi hana upp, hún er fjölskylduleyndarmál.“

Sölukofann segja feðgarnir vera innblásinn af búsetu fjölskyldunnar á Orkneyjum um nokkurra ára skeið. „Bændur þar voru víða með svona skúra og seldu úr þeim egg, kökur eða sultur. Við mundum eftir þessu þegar við fórum að þróa viðskiptahugmyndina,“ útskýrir Kristján Sveinn.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.