Undarleg tilfinning að eiga app á Apple Store

„Ég hef alltaf haft áhuga á forritun og hönnun,“ segir Sara Kolodziejczyk, sem gaf nýverið út snjallsímaforritið „Perlur Hiking Treasures“ sem er upplýsingaforrit um Perlur Fljótsdalshéraðs en verkefnið var útskriftarverkefni hennar við Menntaskólann á Egilsstöðum.


Perlurnar eru samansafn 28 merktra gönguleiða innan Fljótsdalshéraðs sem hafa notið mikilla vinsælda heimamanna og gesta á svæðinu en þær hafa bæði verið gefnar út í bæklingi, verið aðgengilegar gegnum WAPP-gönguleiðaforritið og nú bæði á Apple Store og Google Play Store, á íslensku og ensku, undir nafninu „Perlur Hiking Treasures“.

Hvernig kviknaði hugmyndin? „Við fjölskyldan vorum í sumarfríi á Tenerife í fyrrasumar og ég var orðin frekar stressuð yfir því að vera ekki komin með neina hugmynd að lokaverkefni. Eitt kvöldið vorum við á gangi í verslunarmiðstöð þar sem ég rak augun í auglýsingaskjá þar sem verið var að auglýsa eftir fólki til að hanna vefsíður, snjallsímaforrit og bæklinga. Þar kviknaði hugmyndin; að gera snjallsímaforrit sem myndi nýtast litla samfélaginu okkar á einhvern hátt. Ég vissi að það væru margir sem ganga eftir Perlubæklingnum en í honum er gönguleikur þar sem veglegir vinningar eru í boði. Appið mitt er í rauninni bæklingurinn á rafrænu formi en það eru alltaf fleiri sem nýta sér tæknina og því þægilegt að hafa þetta bara í símanum sem maður er alltaf með á sér,“ segir Sara. 


Stefnir á hugbúnaðarverkfræði
Sara útskrifaðist um jólin af náttúrufræðibraut, verkfræðilínu, og var snjallforritið hennar lokaverkefnið í skólanum. Hún stefnir á hugbúnaðarverkfræði í Háskólanum í Reykjavík í haust. Ég hafði ekki hugmynd um neitt og vissi ekkert hvernig ég ætti að fara að þessu. Ég byrjaði að skoða þetta í sumar, fann mér síðu og gerði appið á henni. Svo þegar ég byrjaði að skoða þetta af einhverri alvöru í haust áttaði ég mig fljótlega á því að þetta var miklu meira og erfiðara verkefni en ég bjóst við. Ég þurfti bara að læra á þetta og klára þetta eins fljótt og ég gat en var oft við það að gefast upp. En þetta var mjög skemmtilegt og ég lærði rosalega mikið, líka bara á sjálfa mig, en ég vissi ekki að ég gæti gert eitthvað svona og kom sjálfri mér rosalega mikið á óvart.“

Sara segir það mjög sérstaka tilfinningu að eiga sitt eigið snjallforrit í Apple Store og Google Play Store. „Ég man fyrst þegar þetta var komið upp á Play Store en pabbi minn er með Android-síma. Þegar hann kom heim úr vinnunni sagði ég við hann: „Getur þú kannski opnað appið mitt í símanum þínum?“ Þetta hljómaði eitthvað svo undarlega, appið mitt! Mjög furðuleg en skemmtileg tilfinning.“

Ætlar að ganga sem flestar perlur í sumar
Á Sara sér einhverja uppáhaldsperlu? „Það er klárlega Þerribjarg eða Landsendi. Ég hef farið þangað nokkuð oft, þar á meðal til að smala á haustin. Ég á hins vegar margar minningar úr Húsey, þar sem gamall bekkjarfélagi minn og vinur býr, þannig að sá staður er líka ofarlega á lista. Ég hef hins vegar sett mér það markmið að reyna að ganga eins margar Perlur og ég get í sumar en það er til skammar að hafa bara skoðað nokkrar þeirra en samt búið til snjallsímaforrit um þær allar! Mig langar mjög mikið í Stórurð aftur en ég byrja líklegast á Strútsfossi sem er einstaklega fallegur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.