Beituskúrinn í Neskaupstað fær drjúga andlitslyftingu

Hinn þekkti samkomustaður Beituskúrinn í Neskaupstað er að taka miklum breytingum til hins betra og það starf þegar komið vel á veg. Í sumar geta gestir notið stærra og fallegra útisvæðis við staðinn auk þess sem veitingahúsið sjálft fær upplyftingu. Nýja útlitið er hannað af heimamanninum Ólafíu Zoëga.

Beituskúrinn þekkja allir heimamenn og margir gestir víðar að enda æði vinsæll bar og grillstaður að sumarlagi í því sem áður fyrr var beinlínis beituskúr fyrir smábátasjómenn staðarins og sem afleiðing af því staðsettur á fyrirtaks stað við sjávarsíðuna í Neskaupstað.

Á forsíðumyndinni má sjá gróflega sjá hvernig verkinu hefur miðað hingað til en sú var tekin fyrr í vikunni. Hér til hliðar gefur hins vegar að líta teikningu af hvernig staðurinn mun líta út síðsumars þegar verkinu skal lokið að sögn Guðröðar Hákonarsonar hjá Hildibrand sem einnig rekur Beituskúrinn.

„Hugmyndin er að ljúka við bryggjusmíðina og veitingastaðinn fyrir sumarið. Ljúka svo frágangi á öðru í kring og taka rauða húsið í gegn síðar í sumar. Þetta tekst hratt og vel því sjálfur get ég vel tekið til hendinni og með ágætan hóp laghentra manna með mér. Sjálfur hef ég aldrei haft gaman af að tala um hlutina heldur vill framkvæma þá og það verður raunin með þetta verkefni sem önnur sem ég kem að.“

Guðröður segir að vitaskuld verði haldið upp á opnun í endurbættu rými og húsakynnum með pompi og prakt þegar að því komi en staðurinn er alla jafna aðeins opinn frá júní og út sumrin.

Forsíðumynd Berglind Björk Arnfinnsdóttir. Teikning Ólafía Zoëga

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.