„Húsfyllir“ á fyrsta konukvöldi Píluklúbbs Vopnafjarðar

Sú staðreynd að níu mánaða gamall píluklúbbur í fámennu byggðalagi státi sig nú þegar af einstaklingi sem kominn er í úrtakshóp fyrir landslið Íslands í greininni er saga út af fyrir sig. Ekki síður merkilegt að „húsfyllir“ var á fyrsta konukvöldi klúbbsins á miðvikudaginn var.

Hér er um að ræða Píluklúbb Vopnafjarðar sem formlega var stofnaður í júlí í fyrra en sökum mikils almenns áhuga eru nú þegar uppi hugmyndir innan klúbbsins að koma á fót sérstakri mótaröð næsta vetur að sögn nýkjörins formanns Kristins Ágústssonar. Hin vítamínsprauta klúbbsins er Dilyan Kolev sem vann til verðlauna á sterku móti í Færeyjum fyrir skömmu og Austurfrétt fjallaði um hér.

Konurnar láta sitt greinilega ekki eftir liggja í íþróttinni. Um 20 þeirra mættu og kepptu sín á milli á fyrsta konukvöldi klúbbsins fyrr í vikunni en fjöldinn svo mikill að í kjölfarið fóru að heyrast raddir um að stækka þyrfti aðstöðuna fljótlega með tilliti til áhugans. Klúbbaðstaðan nú er í húsnæði gamla fiskmarkaðs staðarins.

Sjálfur segir Kristinn að fjöldinn sem stundi sportið á Vopnafirði sé töluverður enda margir sem séu með sín eigin píluspjöld heimavið fyrir utan ágætan fjölda í píluklúbbnum sjálfum. Gleðilegt sé hversu vart hafi orðið við stóraukinn áhuga enn fleiri síðustu misserin og það lofi góðu fyrir framtíðina.

Konur á öllum aldri skemmtu sér dável á konukvöldi Píluklúbbs Vopnafjarðar í vikunni. Mynd Brynjar Davíðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.