Ljósmyndasýning um Fjarðarheiðina

Vorsýning Skaftfells opnar á morgun. Hún nefnist „Heiðin“ og samanstendur af ljósmyndum og myndböndum eftir Seyðfirðinginn Jessicu Auer af Fjarðarheiði. Sýningin er um leið hin fyrsta undir umsjón nýs listræns stjórnanda Skaftfells.

Jessica hefur undanfarin misseri safnað heimildum og tekið myndir til að kanna sögu og þróun Fjarðarheiðarinnar, sem lýsa má sem hæsta vegi landsins sem ekinn er allan ársins hring.

Áform um að gera göng undir Fjarðarheiðina munu breyta henni á margan hátt. Í verkum sýnum leitast Jessica við að fanga ólíkar hliðar hennar um leið og hún veltir vöngum um hvernig hún verði í framtíðinni.

Jessica er fædd í Kanada og með meistaragráðu í ljósmyndun frá Concordia-háskólanum í Montreal þar sem hún kennir fagið í hlutastarfi. Hún hefur undanfarin ár búið á Seyðisfirði þar sem hún rekur Stúdíó Ströndina, stofnun sem tileinkuð er rannsóknum og fræðslu í ljósmyndun. Verk hennar hafa verið sýnd á söfnum, hátíðum og í galleríum víða um heim.

Sýningin er jafnframt sú fyrsta síðan Celia Harrison var ráðinn listrænn stjórnandi Skaftfells. Celia er ný-sjálensk en hefur búið á Seyðisfirði síðan árið 2015. Þar hefur hún tekið þátt í að stofna listahátíðina List í ljósi og byggja upp bæði LungA-skólann og starfsemi í Herðubreið. Hún er með doktorsgráðu í list og hönnun þar sem hún rannsakaði samfélagslega þróun í gegnum listsköpun á tímum loftlagsáskorana.

Heiðin opnar á morgun, laugardag, klukkan 16:00 og sendur til 8. júní.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.