Umsvifamikil björgunaræfing á Eskifirði á morgun
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. maí 2025 13:08 • Uppfært 02. maí 2025 13:08
Fyrsta allsherjaræfing björgunarsveita á Austurlandi í áraraðir verður haldin á Eskifirði. Æfð verður leit og björgun eftir óhapp á sjó. Æfingastjóri segir mikilvægt að samhæfing sveita sé öflug þegar ráðast þurfi í stór verkefni.
„Þegar stór útköll koma þurfum við að þekkja hvert annað og vita hvernig sveitirnar vinna. Æfingar sem þessa stuðla að því að hrista hópinn saman.
Þess utan er gott að koma á hefð fyrir sameiginlegum æfingum. Það er það langt síðan að sveitirnar hér hafa staðið saman að æfingu að þeir sem hef talað við muna ekki ártalið.
Við höfum tekið þátt í öðrum æfingum, sem eru skipulagðar af almannavörnum, en björgunarsveitirnar standa að baki þessari æfingu sjálfar,“ segir Inga Birna Benediktsdóttir, æfingastjóri.
Æfingin hefst með undirbúningsfundi á Eskifirði klukkan 9:30 í fyrramálið. Skömmu síðar hefst leit í bænum en á meðan henni stendur munu þátttakendur fá boð um óhapp á sjó. Stór hluti þeirrar æfingar verður úti á sjó en einnig á landi. „Við munum æfa leit og björgun á sjó og síðan strandleitir í landi. Við erum með nokkra sjúklinga sem hlúa þarf að og síðan gínur,“ segir Inga Birna.
Æfingin er töluvert mikils umleikis. Öllum björgunarsveitum, slysavarnadeildum og unglingadeildum innan Landsbjargar á Austurlandi hefur verið boðið að taka þátt. Tvö björgunarskip koma til Eskifjarðar og fleiri sjóför verða með. Þá er mögulegt að þyrla Landhelgisgæslunnar komi austur. Alls taka um 60 manns þátt og er búist við að sjóbjörgunaræfingin taki 4-5 tíma þannig ekki verði öllu lokið fyrr en undir kvöldmat.
Frá almannavarnaæfingu á Seyðisfirði í fyrra.