Skip to main content

Tvö ný lög frá Jóni Arngrímssyni

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. sep 2025 14:28Uppfært 02. sep 2025 14:31

Tónlistarmaðurinn Jón Ingi Arngrímsson frá Borgarfirði eystra hefur verið atkvæðamikill á þessu ári því auk þess að halda upp á starfsafmæli og stórafmæli hefur hann sent frá sér tvö ný lög.


Jón Ingi hefur verið atkvæðamikill í austfirsku tónlistarlífi í áratugi. Á áttunda áratug síðustu aldar var hann meðlimur í Völundi, einni helstu danssveit fjórðungsins.

Í seinni tíð hefur hann verið þekktari fyrir hljómsveitina Nefndina sem ekki síst hefur spilað á þorrablótum, innan fjórðungs sem utan. Jón hefur líka kennt tónlist, undanfarin ár í Brúarási. Hann hélt í sumar síðbúna afmælisveislu í tónleikaformi í tilefni 70 ára afmælis síns á heimaslóðum sínum á Borgarfirði.

Hann lét ekki þar við sitja heldur gaf út tvö ný lög sem aðgengileg eru á streymisveitum. Annað heitir Jónsmessunótt og er sungið af bróðursyni Jóns, Magna Ásgeirssyni. Eins og svo oft áður eru þar vísanir í fegurð Borgarfjarðar. Hitt, Sumar og sól, er sungið af dóttur Jóns, Sigurlaugu og sonardóttur hans, Karlottu Sigurðardóttur.

Lögin tvö eru aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal því eftir því sem Austurfrétt kemst næst vinnur Jón Ingi að nýrri breiðskífu sem á að koma út á næstu mánuðum.