Troða upp á Egilsstöðum fyrsta sinni
Þeir eru gjarnan flokkaðir sem þungarokkshljómsveit en tónlist þeirra er þó undir áhrifum úr mun fleiri áttum og það svo mörgum að þeim tekst gjarnan að skapa æði sérstakan hljóm á tónleikum þó grunnurinn sé alltaf þungt rokk.
Þannig lýsir Ívar Andri Klausen, bassaleikari hljómsveitarinnar Múr, tónlistinni sem boðið verður upp á í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld en þar kemur fram auk Múr hljómsveitin Caput Corvi.
Múr verið starfandi síðan 2018 en fengu mikinn byr fyrr á þessu ári þegar hljómsveitin fékk Bjartsýnisverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna auk þess að vera tilnefnd til tveggja annarra verðlauna á þeirri hátíð. Tveir af fimm meðlimum sveitarinnar eru fæddir og uppaldir á Egilsstöðum. Það eru þeir Ívar Andri og trommuleikarinn Árni Jökull Guðbjartsson.
Troða mest upp erlendis
Þrátt fyrir að sveitin eigi sér sjö ára sögu var það aðeins fyrst í sumar sem félagarnir stigu á stokk á Austurlandi á Neistaflugi og tónleikarnir í kvöld þeir allra fyrstu á Egilsstöðum.
„Við höfum ekki mikið verið að skipuleggja ferðir um landið hingað til en virkilega gaman að spila loks fyrir Austfirðinga. Við erum hvað mest að troða upp erlendis og vorum þar töluvert í sumar sem leið. Tónlistin okkar er kannski pínu erfitt að lýsa en það er varla hægt að segja að við séum þessu hefðbunda þungarokkshljómsveit. Þetta er þungt rokk en undir svona nokkurs konar Sigurrósaráhrifum og við reynum að skapa svona stóran hljóðheim á tónleikum okkar með stóru og miklu sándi. Þá er líka töluvert í bland af svona tölvutónlistarsándi eins og var vinsælt á níunda áratugnum en söngvarinn okkar hann Kári spilar einmitt á Keytar sem er nokkuð sérstakt í þungarokkinu í dag. Ég get alveg lofað góðri upplifun enda keppikefla hjá okkur að skapa eins stóran tónlistarheim og okkur er unnt á tónleikum.“
Húsið opnar klukkan 20 en sjálfir tónleikarnir hefjast klukkustund síðar. Miða aðeins hægt að kaupa í anddyrinu. Mynd Íslensku tónlistarverðlaunin