Tónlistarstundirnar liður í að skapa austfirsku tónlistarfólki tækifæri
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. júl 2025 16:24 • Uppfært 04. júl 2025 16:25
Fimmtu og síðustu tónleikarnir þetta árið í röðinni Tónlistarstundir á Héraði verða haldnir í Vallaneskirkju á sunnudagskvöld. Hálfaustfirska kammerhópurinn Öræfi flytur á þessum fyrstu tónleikum sínum nýtt verk eftir austfirskt tónskáld.
Hópurinn er skipaður þeim Sóleyju Þrastardóttur, flautuleikara og tónlistarskólastjóra á Egilsstöðum, Ágústu Arnardóttur, sellóleikara sem er alin upp á Seyðisfirði og liðsmaður Sinfóníuhljómsveitar Austurlands og Þórunni Harðardóttur, víóluleikara.
Þær stofnuðu kammerhópinn fyrr á þessu ári og því verða þetta þeirra fyrstu opinberu tónleikar. Fimm tónverk eru á efnisskránni, þar af verkið „Leiðin að settu marki“ eftir Báru Sigurjónsdóttur frá Egilsstöðum. Það er aftur hluti af stærra verkefni sem hún vinnur að.
Samstarfsvettvangur austfirsks tónlistarfólks
Tónlistarstundirnar hafa gengið í rúm tuttugu ár en Torvald Gjerde, fyrrum organisti við Egilsstaðakirkju, stofnaði til þeirra. Hlín Pétursdóttir Behrens hefur síðan tekið við stjórn þeirra. „Yfirleitt eru þetta fimm tónleikar á hverju sumri. Tónlistin er blönduð en til dæmis er hefð fyrir einum tónleikum með tónlistarnemum af Héraði sem eru langt komnir í námi. Í ár fengum við líka með okkur söngvara frá Seyðisfirði,“ segir hún.
Hún segir markmið Tónlistarstundanna meðal annars vera að búa til vettvang fyrir starfandi tónlistarfólk á svæðinu til að koma fram og vinna saman. „Það er mikilvægt og gaman að fá gesti en það er jafn mikilvægt að búa til spennandi tækifæri fyrir listafólk sem býr á svæðinu.“
Í þeim hópi fjölgar alltaf. Á tónleikum í gær komu fram Jón Sigurðsson, píanóleikari og Sólrún Bragadóttir, söngkona. Hún er að flytja til Breiðdalsvíkur í haust en hún er meðal annars ættuð frá Tóarseli í Breiðdal. „Ég vona að það verði lyftistöng fyrir tónlistarstarf og söngmenntun á svæðinu,“ segir Hlín.
Tónlistarstundirnar njóta velvilja
Önnur hefð sem hefur haldist frá upphafi er að enginn aðgangseyrir er á tónleikana. „Torvald kom því á í von um að ná til ferðafólks. Það eru alltaf einhverjir sem slæðast inn, nógu margir til að það þarf að kynna bæði á íslensku og ensku.
Það er ánægjulegt að hægt sé að hafa frítt inn og það er þökk því við fáum öflugan stuðning úr Uppbyggingarsjóði, Tónlistarsjóði og frá Múlaþingi. Við höldum í þá hefð meðan við fáum til þess stuðning,“ segir Hlín.
Kammerhópurinn Öræfi á æfingu í Vallaneskirkju í gærkvöldi. Mynd: Hlín Behrens