Tilraun með breytingu á fermingarathöfninni í Egilsstaðakirkju á morgun
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. apr 2025 15:13 • Uppfært 16. apr 2025 15:17
Um 100 börn fermast á vegum Þjóðkirkjunnar á Austurlandi í ár, þar af tæpur helmingurinn í kringum páskana. Tilraun verður gerð með breytingu á fermingarathöfninni við í Egilsstaðakirkju á morgun.
„Sr. Þorgeir Arason, sóknarprestur, á sæti í Handbókanefnd kirkjunnar sem er að skoða formið. Það hefur ekki verið gefin út ný Handbók heldur er árið í ár tilraunaár og þess vegna verður athöfnin á morgun með örlítið breyttu sniði,“ segir Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi.
Fermingin er samfélagsathöfn
Hún útskýrir að unnið sé með hugmyndir um að kristnir einstaklingar séu alltaf í samfélagi innan kirkjunnar. Þannig hefur ávarpinu „Drottinn sé með yður“ verið breytt í „Drottinn sé með ykkur.“ Þannig hefur það verið tónað í Egilsstaðakirkju í vetur. „Maður sér viðbrögð, sem er gott,“ segir Sigríður.
Stærsta breytingin á morgun er að þegar fermingarbörnin verða spurð hvort þau vilji leitast við að hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs síns svara þau öll í einu í stað þess að gera það hvert í sínu lagi. „Þótt hver og einn fermist sem einstaklingur þá er kirkjan alltaf samfélag og fermingin er líka samfélagsathöfn,“ segir Sigríður Rún sem leiðir athöfnina á morgun með Þorgeiri.
Hún segir að áfram muni fermingarbörnin koma hvert og eitt upp að altarinu, fá sína blessun og lesa sín ritningarorð. Að sinni verður hefðbundin leið farin í öðrum kirkjum á Austurlandi og þótt ný handbók sé væntanleg er í henni gert ráð fyrir svigrúmi að fara hvora leiðina sem er í fermingum framvegis.
Ánægjulegt að taka þátt í gleðistundum fjölskyldunnar
Sigríður Rún segir að fjöldi fermingarbarnanna í ár sé svipaður og þau fyrri sem og hlutfallið úr árganginum sem kýs að fermast innan Þjóðkirkjunnar. Prestarnir á Austurlandi hafa í vetur sinnt fermingarfræðslu til barnanna.
„Það er búið að vera gaman að vera með krökkunum í henni, að fá að kynnast þeim og velta upp stóru spurningunum um lífið. Ég heyrði til dæmis í Erni Bárði Jónssyni, reynslumiklum prests sem þjónar tímabundið í Hofsprestakalli og hann er mjög ánægður með sinn hóp.
Fermingin er ein af þeim tímamótum sem verða á ævinni. Hún skiptir máli á þessum tímapunkti. Það er got að vera búinn að nesta sig út í unglingsárin og hafa manngildið og siðferðisspurningarnar á hreinu þegar frekari spurninga verður spurt og ýmislegt verður í boði.
Það er gaman að sjá fjölskyldur og aðstandendur koma saman til fermingarathafnanna og fá að gleðjast með þeim. Þessar stundir setja það í samhengi hvað við erum lánsöm með fólkið sem við erum samferða,“ segir Sigríður Rún.
Fleiri fermast á sumrin
Sú breyting hefur orðið á að þungi ferminganna er nú kominn yfir á sumarið. Þá fermast flest barnanna um hvítasunnuna en þjóðhátíðardagurinn er líka vinsæll og síðan eru fermingar á dagskránni í bæði júlí og ágúst.
„Ég held það hafi orðið breyting í Covid-faraldrinum. Fyrir löngu var fermt í Seyðisfjarðarkirkju um hvítasunnuna, síðan var það skírdagur. Ég held að það hafi ráðið því að um páskana voru margir frídagar í röð og hægt að vera saman eftir ferminguna. Núna fermum við um hvítasunnuna,“ segir Sigríður Rún sem er með sína starfsstöð á Seyðisfirði.
„En það hefur alltaf ákveðinn hluti fermst að sumri, einkum í sveitakirkjunum. Við getum nefnt Möðrudal sem dæmi þar sem í júní fermast fjögur frændsystkini auk þess sem þar verður skírn. Fólkið sem tengist staðnum heldur mikilli tryggð við kirkjuna sína,“ segir Sigríður.
Mikil þátttaka í trúarstundum um páskana
Fyrir utan fermingarnar verða ýmsir viðburðir í austfirskum kirkjum og innan prestakallana um páskana. „Mér finnst kirkju sókn vera að aukast í kringum páskahátíðna. Áður voru ákveðnar stundir, eins og fjölskyldustundir með páskaeggjaleit, vel sóttar en það virðist líka vera vinsælt að koma í kyrrðarstundir eða samveru. Það er nóg að gera hjá okkur prestunum en þetta er gefandi og gaman.“