Skip to main content

Tilkoma Tónspils ekki bara góð fyrir tónlistarfólk heldur bæjarlífið í Neskaupstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. júl 2025 10:49Uppfært 16. júl 2025 10:49

Fjórir ungir tónlistarmenn frá Norðfirði halda í kvöld aðra tónleika sína á innan við viku í Tónspili. Ein úr hópnum segir aðstöðuna gera mikið fyrir tónlistarfólk í bænum en líka viðburðahald þar almennt.


„Við vorum með tónleika síðasta laugardag og upphaflega áttu það að vera einu tónleikarnir. En það var áhugi fyrir öðrum, margir voru ekki heima og núna er fermingarbarnamót þannig við vorum fengin til að hafa aðra.

Mætingin á laugardag var góð og salurinn góður og miðað við það sem við heyrum þá stefnir í góða mætingu í kvöld,“ segir Ísabella Danía Heimisdóttir.

Hún ætlar að koma fram í Tónspili í kvöld ásamt þeim Júlíusi Óla Jacobsen, Óskari Sveinssyni og Amelíu Rún Jónsdóttur. Þau eru öll rúmlega tvítug og alin upp í Neskaupstað.

„Þau þrjú spiluðu mikið saman sem unglingar meðan ég hef meira sungið mér til skemmtunar. Við komum upphaflega saman til að halda jólatónleika en nú eigum við þetta fína tónlistarhús þar sem okkur leist vel á að halda uppi stemmingunni,“ segir Ísabella.

Æfingaaðstaðan í Tónspili nýtist vel


Þar á hún við Tónspil, félagsheimili Blús-, rokk- og jazzklúbbsins á Nesi sem opnaði fyrir rúmu ári. Þar er á neðri hæðinni lítill tónleikasalur en á efri hæðinni aðstaða fyrir tónlistarfólk til æfinga, sköpunar og upptöku.

„Tónspil er mikilvægt fyrir tónlistarlífið því þarna höfum við aðgang að æfingahúsnæði þegar okkur hentar og aðstöðu fyrir minni tónleika. Egilsbúð er stundum of stór. Við höfum verið mikið í æfingaaðstöðunni, hún er mjög góð og þar er nánast allt til alls.

En Tónspil er ekki bara gott fyrir okkur í tónlistinni heldur líka mikilvægt fyrir bæjarfélagið. Dagskráin hefur verið mjög flott og nánast eitthvað allar helgar.“

Um efnisskrá fjórmenninganna segir Ísabella að hún sé mjög blönduð. Þau flytji tökulög, íslensk og erlend, gömul og ný. Þau eru ekki búin að fastnegla fleiri tónleika í sumar þótt þau stefni á að koma eitthvað fram á Beituskúrnum. „Þessir tónleikar hafa gengið vel og þess vegna ætlum við að gera meira, meðal annars því við höfum svo góða aðstöðu. Við erum að þessu okkur til gamans og hlökkum til að sjá alla í kvöld.“