Skip to main content

Þrjár austfirskar konur sem mörkuðu spor í baráttunni fyrir kosningarétti

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2025 18:03Uppfært 18. ágú 2025 18:04

Á sumarsýningu Héraðsskjalasafns Austfirðinga í Safnahúsinu á Egilsstöðum er brugðið upp svipmyndum af þremur alþýðukonum í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna í byrjun 20. aldar. Í ár eru liðin 110 ár frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis.


Sýningin fjallar um þær Sólveigu Jónsdóttur, Bergþóru Helgadóttur og Þuríði Jónsdóttir.

Sólveig var fyrst kvenna kjörin í sveitarstjórn á Austurlandi, á Seyðisfirði árið 1910. Sólveig flutti með fjölskyldu sinni frá Múla í Aðaldal til Seyðisfjarðar, í húsið Múla sem enn stendur og dregur nafn sitt frá fjölskyldunni.

Sólveig tilheyrði kvennalista sem bauð fram á Seyðisfirði í kosningum um tvö laus sæti í sveitarstjórn þetta ár. Framboðið var hluti af stærri hreyfingu, en tveimur árum fyrr hafði kvennalisti í Reykjavík náð góðum árangri. Kvennalistinn náði öðru af sætunum tveimur.

Sólveig sat í sveitarstjórn eitt kjörtímabil, bauð sig fram aftur en náði ekki kjöri. Hún flutti síðar ásamt manni sínum til Bandaríkjanna. Eftir henni er nefnt Sólveigartorg á Seyðisfirði, í miðjum bænum fyrir framan skólann, en nafnið var afhjúpað fyrir tíu árum.

Kosið í heyranda hljóði


Bergþóra bjó á Geirólfsstöðum í Skriðdal og var fyrsta konan á Austurlandi sem greiddi annarri konu atkvæði í sveitarstjórnarkosningum í dreifbýli. Það gerði hún líka árið 1910, en þá var kosið þannig að kjósendur sögðu upphátt nöfn þeirra sem þeir vildu kjósa og það var skráð. Bergþóra kaus þáverandi oddvita og síðan þrjár konur. Þær fengu ekki fleiri atkvæði.

Þuríður bjó að Arnkelsgerði á Völlum og starfaði sem ljósmóðir. Í grein í Austra kemur fram að Kvenfélagið hafi staðið fyrir samkomu þar sem segir að hún hafi talað um kosningarétt kvenna. Ekki fer frekari sögum af innihaldi ræðunnar en ætla má að hún hafi verið til stuðnings kosningarétti kvenna til Alþingis.

Beata Brodowska, starfsmaður Minjasafns Austurlands og Ingibjörg Sveinsdóttir, frá Héraðsskjalasafninu, við uppsetningu sýningarinnar. Mynd: Björg Björnsdóttir

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.