Skip to main content

Þrívíddarprentarar eru ótrúleg tæki

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. feb 2025 17:45Uppfært 24. feb 2025 17:47

Síðasta haust stofnuðu hjónin Fannar Hafsteinsson og Joanna Kasprzak PolPrint, þrívíddarprentfyrirtæki, sem sérhæfir sig í heimilisprýði. Nafn nýstofnaðs fyrirtækis þeirra er tileinkað heimalandi Jóönnu, Póllands.


Heimili þeirra á Eskifirði er fullt af áhugaverðum hlutum sem þau hafa búið til með þrívíddarprentun. Fannar er fljótur að sýna fram á hversu hugmyndarík þau eru, með því að sýna nokkrar af þeirra mest framandi og sniðugu afurðum: lampa innblásnum af uppáhalds fótboltaliði sonar hans, heyrnartólastand, sleifarhaldara, og jafnvel portrettmyndir af gæludýrum þeirra. Fannar og Joanna geta prentað hvaða hluti sem fólk þarf, hvort sem það er aðeins til skrauts á vegg eða borð eða það sé eitthvað gagnlegt eins og varahlutir í þvottavélar.

Ótrúlegt tæki sem býr til hluti


Fannar er menntaður rafvirki en fékk áhuga á þrívíddarprentun fyrir fimm árum þegar hann keypti sér fyrsta prentarann og byrjaði að prenta hluti af miklum áhuga.

„Þegar þrívíddarprentunin byrjaði voru bara til stórar og dýrar vélar. Ég sagði við konuna mína að ég myndi kaupa mér slíkan prentara einhvern tíma út af tækninni sem liggur að baki. Tækið býr til hluti – það fer bara í hringi og býr til hluti – sem er ótrúlegt,“ segir Fannar.

Nýrri prentararnir eru þróaðri og auðveldari í notkun, sem opnar óteljandi möguleika. Johanna hafði ekki mikinn áhuga í fyrstu en er nú orðin jafn hugfangin og Fannar.

Byrjuðu á að snyrta heimilið


Allt byrjaði með skemmtilegum og frumlegum hlutum sem Fannar og Joanna prentuðu fyrir eigið heimili og deildu stundum á Facebook. Þetta var leið til að sýna vinum og fjölskyldu sköpunarverk þeirra, en þau vöktu fljótlega athygli annarra: vina, ættingja og jafnvel ókunnugra. Fólk fór að spyrja hvort það gæti keypt einhverja af hlutunum sem þau höfðu búið til. Þegar áhuginn jókst, vatt hugmyndin upp á sig og varð að atvinnu. Mestra vinsælda njóta lampar og hreindýrafígúrur – og viðskiptavinirnir eru um allt land.
„Kaffivélin okkar bilaði nýlega og ég prentaði hluti fyrir hana. Það er svo gott að hafa möguleikann á að laga eitthvað sem bilar,“ segir Fannar.

Húsið of lítið fyrir starfsemina


Þótt Fannar, með ást sinni á tækni og nýjum lausnum, hafi verið sá sem kveikti fyrst hugmyndina, er það Joanna sem hefur raunverulega gefið henni líf með sköpun sinni. Það sem er svo spennandi við þrívíddarprentun er að möguleikarnir eru nánast endalausir. Ef þú getur ekki fundið eitthvað sem þú þarft, eða ef hlutir úr tækjum bila, getur þú einfaldlega prentað nýtt. Það skiptir ekki máli hversu stór eða lítill hluturinn er.

Mynd: Marko Umicevic

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.