Þrír Austfirðingar á Evrópumótinu í verkgreinum

Þrír Austfirðingar, þau Hlynur Karlsson, Irena Fönn Clemmensen og Patryk Slota tóku þátt í Evrópumóti iðn-, tækni- verkgreina eða Euroskills í Gdansk í Póllandi síðasta haust. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa hafið iðnnám sitt í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) en Patryk var sá eini sem lauk því þaðan og keppti undir merkjum skólans úti. Austurfrétt ræddi við Patryk og Irenu um keppnina.

Patryk útskrifaðist úr rafvirkjun í VA árið 2019. Hann segir Hafliða Hinriksson, kennara, hafa komið og spurt hvort hann gæti tekið þátt í Íslandsmótinu undir merkjum VA. Hann hafi gert það og gengið það vel að honum hafi verið boðið að taka þátt í Euroskills. Hann varð þó að bíða vegna Covid-faraldursins.

Irena kláraði fyrst stúdentspróf frá VA en bætti síðan við sig tveimur árum í hársnyrtiiðninni. Hún lauk því sem hún gat eystra árið 2019 en flutti þá norður og lauk prófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 2020. Hún segir kennara sinn í VA, Svanlaugu Aðalsteinsdóttur, hafa hvatt sig til að taka þátt í keppninni. Á þeim tíma hafi hún verið búin að ákveða að fara í skiptinám til Ungverjalands.

Hægt er að keppa í Íslandsmótinu fram að 25 ára aldri og þess vegna stökk Irena á tækifærið þegar það gafst í síðasta vor. „Svanlaug hitti mig í fyrra og sagði að ég yrði að keppa því ég hefði enn aldur. Ég áformaði ekki að vinna keppnina en gerði það samt og þá var ákveðið að senda mig til Póllands.“

Keppendur annarra landa æfa árum saman


Keppendurnir fá þrautir úr eldri keppnum til að undirbúa sig. Reglunum er hins vegar breytt ár frá ári þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvað eigi að gera. „Hvernig undirbúningi er háttað fer eftir samvinnu þjálfara, keppanda og annarra í kring. Sumir undirbúa sig í viku, aðrir í hálft ár,“ segir Patryk.

„Við Íslendingar erum ný í keppninni og enn að þróa okkar þjálfun. Önnur lönd æfa oft í þrjú ár og sú sem vann mína grein hafði æft í fimm ár fyrir mótið. Við höfðum bara þrjá mánuði fyrir mótið og ég var löngu búin að ákveða að dvelja á Ítalíu í þrjá mánuði í sumar. Fólkið hér heima hafði samband við ítalska keppnisstjórann og hún tók mig að sér yfir helgi. Ætli ég hafi ekki alls æft í tvær vikur,“ segir Irena.

Stigahæst Íslendinga


Í keppninni sjálfri er síðan kapp við tímann. Það reyndist Patryk erfitt og hann náði ekki að klára allt til að komast í gegnum niðurskurð eftir fyrstu tvo keppnisdagana. Það skilaði honum þó í þriðja sæti. Hlynur keppti í rafeindavirkjun og náði þar 8. sæti.

Áskoranirnar reyndu einnig á Irenu en henni tókst samt ágætlega upp. „Ég fékk tvær viðurkenningar. Aðra fyrir að vera á meðal tíu efstu í greininni. Ég varð áttunda af rúmlega tuttugu keppendum. Síðan var ég stigahæst íslensku keppendanna.

Almennt gekk mér vel en keppnin var stressandi. Ég viðurkenni að ég fór einu sinni að gráta þegar eitthvað gerðist sem ég sá ekki fram á að geta lagað. Mér finnst þetta vera góður árangur miðað við tímann sem önnur lönd höfðu til að æfa. Við vitum núna hvað við getum gert betur,“ segir hún.

Myndir: Hafliði Hinriksson

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.