Þrír nemendur úr VA á Evrópumóti iðngreina

Þrír fyrrverandi nemendur Verkmenntaskóla Austurlands eru komnir til Gdansk í Póllandi þar sem Euroskills, Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina verður haldið.

Mótið verður sett í kvöld en keppnin hefst á morgun og stendur í þrjá daga. Lokaathöfn og verðlaunaafhending verða á laugardag.

Alls keppa ellefu Íslendingar á mótinu og eiga þrír þeirra bakgrunn í VA. Það eru Hlynur Karlsson, sem keppir í rafeindavirkjun, Írena Fönn Clemmensen, sem keppir í hársnyrtiiðn og Przemyslaw Patryk Slota, sem keppir í rafvirkjun.

Þau eru reyndar öll útskrifuð úr skólanum. Hlynur lauk grunndeild rafiðna árið 2021 og keppir fyrir Tækniskólann. Írena Fönn lauk sinni fjórðu önn í háriðn við VA 2019 og keppir fyrir Verkmenntaskólann á Akureyri. Þau tvö urðu Íslandsmeistarar í á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í vor. Patryk lauk námi í rafvirkjun frá VA 2017 og varð Íslandsmeistari 2019. Hann er skráður sem keppandi VA.

Von er á 600 keppendum ásamt þjálfurum frá 32 þjóðum á Euroskills. Íslenski hópurinn telur alls um 40 manns. Keppt er í 42 greinum og búist við um 100 þúsund áhorfendum.

Íslenski hópurinn ásamt liðs og fararstjóra í Gdansk. Írena Fönn er lengst til vinstri í fremri röð. Hlynur er þriðji frá hægri og Patryk fjórði í aftari röðinni. Mynd: Samtök iðnaðarins

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.