Skip to main content

Þrándarjökull á sér ekki viðreisnar von og Hofsjökull eystri er varla jökull lengur

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. feb 2025 17:59Uppfært 28. feb 2025 18:03

Jöklar á Austurlandi hörfa hratt vegna loftslagsbreytinga. Þrándarjökull mun hverfa innan 30 ára og Hofsjökull eystri er trúlega hættur að skríða, sem þýðir að hann er tæknilega ekki lengur jökull. Fleiri minni jöklar á Austurlandi eru í hættu eða jafnvel horfnir.


Jöklar á Íslandi minnka stöðugt og eru margir hverjir á leið til glötunar. „Skilgreiningin á jökli er haugur af snjó og ís sem er nógu þykkur til að hníga undan eigin fargi. Til þess þarf hann að verða 40-50 metra þykkur. Skaflar, jafnvel þótt þeir endist ár eftir ár, falla ekki undir þá skilgreiningu.“

Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur, hefur í áratugi rannsakað jökla á Íslandi og fylgst náið með þróun þeirra á Austurlandi. Hann kortlagði austfirska jökla árið 2002 og taldi þá vera 42 talsins. Þeir hafa hins vegar verið í stöðugri afturför síðan þá.

„Ég hef ekki tölu á hvaða jöklar hafa horfið á svæðinu síðan. Þeir eru einhverjir en ekki margir. Flestir jöklanna á Austurlandi eru svokallaðir skálarjöklar, sitja í skálum á móti norðri. Þeir eru þannig í forsælu gagnvart sólinni og í skafrenningi skefur í skálarnar þannig að ákoman er meiri þar en fyrir svæðið að jafnaði.“

Hofsjökull eystri er ekki lengur jökull


Hofsjökull eystri er einn þeirra jökla hérlendis sem eru næstir því að hverfa. Hann liggur upp af Álftafirði og Lóni, á mörkum Múlaþings og Hornafjarðar. „Hann er þrotinn, ég held að hann sé hættur að skríða og þá er hann strangt til tekið ekki lengur jökull. Ég hef ekki fengið nógu góðar myndir til að dæma um hvort á honum sé eitthvert ákomusvæði en ég tel það ekki koma til greina. Hann er lægri en Þrándarjökull og ber öll merki þess að vera að hverfa.“

Ákomusvæði jökulsins er það svæði þar sem hann fær úrkomu sem breytist í nýjan ís og er yfir ákveðinni hæð en neðan þess er hjarnsvæði, það er það sem bráðnar. Þegar hlutföllin á milli raskast þannig meira bráðnar yfir árið en bætist við er dauðastríð jökulsins hafið.

Þrándarjökull hverfur á næstu 30 árum


Þrándarjökull, sem er staðsettur syðst á Hraunasvæðinu, er einnig á hraðri niðurleið. „Þegar hjarnmörkin eru komin upp fyrir topp jökulsins, eins og á Þrándarjökli, þá herðir leysingin á sér og jökullinn á sér ekki viðreisnar von.“

Oddur telur líklegt að jökullinn hverfi innan 30 ára. „Miðað við það sem ég sé í dag giska ég á að Þrándarjökull eigi svona 30 ár eftir. Ég held að Hofsjökull verði farinn fyrr, á næstu 10-20 árum.“

Brúarjökull gæti hlaupið fram innan 30 ára


Brúarjökull er stærsti framhlaupsjökull landsins og Oddur telur líklegt að hann hlaupi fram á næstu áratugum. „Ég á von á að hann hlaupi fram innan 20-30 ára, gæti þess vegna farið af stað bráðlega. Hann hljóp fram árin 1890, 1910 og loks 1963. Síðan hljóp lítill hluti hans fram árið 1938.“

Framhlaup Brúarjökuls getur haft miklar afleiðingar. „Hann skreið fram 8 km á 1-2 mánuðum 1963-4. Það hlýtur að vera í hönnunarforsendum stíflna Hálslóns hvað gerist ef jökull skríður svona fram.“

Jökullinn Jökull


Í norðanverðum Dyrfjöllum, ofan Stórurðar er jökull sem heitir bara Jökull. „Ég hef orð Héraðsbúa fyrir því að hann sé eini jökullinn hérlendis með því nafni. Þar má líka sjá að það hefur verið jökull rétt við skarðið, síðan eru tveir austan í og aðrir tveir sunnan í.

Ég held að annar jöklanna að austanverðu, sem nefndur var Urðarjökull eystri, sé horfinn, ég dæmdi hann dauðan þegar ég skoðaði hann síðast á myndum frá 2021.“

Hvað gerist ef jöklarnir hverfa?


Jöklar eru ekki aðeins stórbrotnir heldur geyma þeir einnig sögulegar upplýsingar um loftslag og eldgos á Íslandi. „Í Brúarjökli eru öskulög úr Kötlugosinu árið 1262 og þar fyrir neðan eru fleiri öskulög. Í honum er því meira en 1000 ára gamall ís sem segir okkur söguna nánast frá landnámi. Á hverju ári hverfur fimm ára saga og sagan sem jöklarnir búa yfir verður aldrei endurheimt hvað sem í boði er.“

Þegar jöklar bráðna, minnkar þyngd þeirra á landinu og veldur því að jarðskorpan rís. „Til dæmis grynnist innsiglingin til Hornafjarðar. Til lengdar hugsa ég að landrisið bjargi frekar en hitt brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi.“

Þetta eykur líka hættuna á berghlaupum. „Jöklar grafa sér U-laga dali með bröttum hlíðum. Þegar þeir hopa styðja þeir ekki lengur við hlíðarnar og því er hætta á að þær hrynji.

Afleiðingarnar eru annars litlar fyrir okkar daglega samfélag, nema við erum búin að byggja virkjanir í jökulám sem eru hannaðar til að taka við leysingavatni frá jöklinum. Þetta þýðir ekki að virkjanirnar verði ónýtar en það þarf að breyta rekstrarfyrirkomulaginu.“

Óstöðvandi bráðnun jökla


Oddur telur útilokað að hægt sé að stöðva þessa þróun. „Gróðurhúsaáhrifin eru mjög vel þekkt eðlisfræðilegt fyrirbrigði. Það er alveg vitað hvaða áhrif það hefur að auka koltvísýring í lofthjúpnum.“

Hann telur að íslenskir jöklar muni hverfa á næstu 200-300 árum. „Við erum að brenna kolefni sem hefur verið geymt í jörðinni í hundruð milljóna ára. Þess vegna bendir ekkert til þess að íslenskir jöklar lifi lengur en í 200-300 ár.“

Af hverju var Vatnajökull kallaður Klofajökull?


Íslensku jöklarnir hafa breyst í áranna rás. Þeir virðast hafa verið minni fram á 13. öld, þegar kólnaði í veðri á tímabili sem kallað er Litla-Ísöld. Vatnajökull var eitt sinn kallaður Klofajökull og sögur eru um íslausan dal sem gekk inn í jökulinn. Þá eru vísbendingar um samgöngur yfir jökulsvæði á milli Fljótsdals og Hornafjarðar.

„Ég held að hann hafi ekki heitið Klofajökull því hann var klofinn í tvennt. Eldri heimildir halda því fram að svo mörg klof hafi fengið upp í hann í Suðursveit og á Mýrum, aðrir að klofið hafi verið í kringum Kverkfjöll. En það skiptir ekki máli. Það myndi engin kalla Langjökul og Hofsjökul Klofajökul þótt hægt sé að ganga upp á milli þeirra. Mér finnst því ósennilegt að Vatnajökull hafi verið klofinn í tvennt á sögulegum tíma.

Menn voru ekki hræddir við að fara yfir jökul, þeir kunnu að klæða sig og ferðbúast þannig að þeir gætu lent í óveðri og lifað af. Þess vegna fóru menn yfir jökulinn, til dæmis til að sækja fisk suður í Suðursveit.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.