Þjónustuhúsið við Hengifoss fyllist lífi með veitingasölu
Í byrjun síðasta mánaðar fór allt reglulega að fyllast af lífi í þjónustumiðstöðinni við Hengifoss í Fljótsdal fyrsta sinni en þá hófst þar innandyra sala á veitingum til ferðamanna. Nú hafa gestir í dalinn úr ýmsu að velja þegar kemur að veitingum og þjónustu.
Nýja þjónustumiðstöðin var formlega tekin í notkun fyrir réttu ári síðan en aðstaða gesta fram að því var mjög takmörkuð og einskorðist að mestu leyti við lítinn skúr með aðeins tveimur salernum, malarplani auk veitingasölu Hengifoss Food Truck allra síðustu árin.
Klósettaðstaðan þótti mörgum miður boðleg á þessum geysivinsæla áfangastað en vel yfir hundrað þúsund gestir hafa gert sér ferð að Hengifossi árlega undanfarin ár. Fljótsdalshreppur greip því í taumana og lét hanna og byggja þjónustumiðstöð sem félli vel inn í landslagið. Þrátt fyrir að opnunarteitið hafi verið fyrir sléttu ári síðan er það fyrst nú sem húsið er að nýtast eins og menn sáu fyrst fyrir sér að sögn Helga Gíslasonar, sveitarstjóra, eftir að veitingasala hófst loks þar innandyra í júlí.
Verkfræðíngur og gröfumaður
„Það hefur gengið afar vel frá því að þeir hófu að bjóða upp á eitt og annað í þjónustumiðstöðinni. Þarna er um toppmenn að ræða úr sveitarfélaginu. Annar þeirra verkfræðingur og hinn þaulvanur gröfumaður og alveg hreint súperverktakar í einu og öllu. Það er komin á góð samkeppni í veitingum á staðnum og fólk lætur vel af því úrvali sem nú er í boði á staðnum. Annars erum við afar ánægðir með að húsið allt sé nú komið í fullan rekstur. Í raun hefur aðeins snyrtiaðstaðan verið opin svona á meðan við vorum að ákveða hvað við vildum sjá þarna innandyra en nú er búið að innrétta allt og opna það að fullu. Þar er líka upplýsingaborð þegar landvörðurinn er viðlátinn sem getur gefið fólki upplýsingar. Það er reyndar ekki varanleg aðstaða að sinni en gróflega má segja að reksturinn sé kominn í þann farveg sem við sáum fyrir okkur.“
Nú eru því hvorki fleiri né færri en fjórir staðir í Fljótsdalnum þar sem gestir geta notið veitinga í góðu yfirlæti. Staðirnir tveir við Hengifoss, landsfrægt hlaðborðið í Skriðuklaustrinu auk þess sem hægt er að njóta veitinga allt sumarið í Óbyggðasetrinu.