Þjóðsagnastaðir í náttúrunni og tilviljanakennd varðveisla menningararfsins
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. jún 2025 17:28 • Uppfært 25. jún 2025 17:29
Jón Jónsson, þjóðfræðingur á Ströndum og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hólmavík heldur á morgun fyrirlestur á vegum Rannsóknaseturs skólans á Egilsstöðum um tilviljanakennda varðveislu menningararfsins.
Jón, sem er þekktur fyrir líflega fyrirlestra, ræðir um tilviljunarkennda varðveislu fróðleiks og áhrif íbúa landsins á náttúru og landslag, einkum um menningarlandslag, örnefni og þjóðsagnastaði.
Hann skoðar sagnaarf Íslendinga í samhengi við gildandi reglur um minjavernd og sögustaði og ræðir um hvernig bæta þyrfti stjórnsýslu. Álfakirkjan Topphóll í Hornafirði, sem nýlega var eyðilögð við vegagerð, er tekin sem dæmi.
Einnig er skoðað hvernig þessi menningararfur fyrri kynslóða hefur skilað sér til samtímans og hvaða gildi hann hefur fyrir fólk nú á tímum. Þá er ætlunin að velta vöngum um með hvaða hætti og við hvaða aðstæður slíkar upplýsingar týnast helst og tapast og sögur og sagnir gleymast.
Fyrirlesturinn er á Hótel Héraði klukkan 16:00 og er aðgangur ókeypis.