Þjóðbúningagerð kennd á Eiðum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. mar 2025 18:33 • Uppfært 31. mar 2025 18:34
Níu konur víða af Austurlandi luku í haust námskeiði í þjóðbúningagerð sem kennt var fjórar helgar í röð að Eiðum. Um var að ræða fyrsta námskeiðið í þjóðbúningagerð sem haldið er á á Austurlandi svo áratugum skiptir.
Samband austfirskra kvenna stóð að baki námskeiðinu en Oddný Kristjánsdóttir frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands kenndi. Hún segir vaxandi áhuga á þjóðbúningagerð.
„Mér finnst það sannarlega. Við hér höldum nokkuð reglulega slík námskeið annars staðar og er gleðilegt að koma nú austur líka. Áhuginn er hjá báðum kynjum en mikill meirihluti er auðvitað konur.
Það sem er sérstaklega gaman, er hversu kynslóðabilið á námskeiðunum flestum er stórt. Á Eiðum voru þátttakendur frá tvítugsaldrinum og upp í sjötugt og það er reglan frekar en undantekning að svo breiður aldurshópur taki námskeiðið. Þannig að þjóðbúningagerð er ekki bara áhugamál hjá þeim eldri.
Það er jákvæð þróun því þjóðbúningurinn íslenski er mikilvægur og stór partur menningararfs okkar hér á landi. Það ekki spennandi tilhugsun að sjá hann lognast út af,“ sagði hún eftir námskeiðið.
Engir tveir þjóðbúningar eins
Oddný bendir á að það sé sérstakt við íslenska þjóðbúninginn hversu mikið frjálsræði hann veiti í hönnum. „Öllum er frjálst að hanna búninginn eftir eigin höfði og það er einmitt einn stór kostur að mínu mati við íslenska þjóðbúninga að engir tveir eru í raun eins. Þeir eru skreyttir eftir smekk hvers og eins og fer auðvitað mikið eftir því hvaða skrauti eða munum fólk vill skreyta sinn búning með.
Þetta er mjög frábrugðið því hvernig þetta er til dæmis í Noregi þar sem hvert fylki á sinn eigin búning og þeir alltaf saumaðir alveg eins. Það er því miklu meiri fjölbreytni í þjóðbúningum Íslendinga og flestir segja það vera af hinu góða.“
Námskeiðin eru haldin að því gefnu að nógu margir þátttakendur fáist. Það tókst að þessu sinni en áhuginn mun hafa verið slíkur að til skoðunar er hvort hægt sé að halda annað slíkt námskeið innan tíðar.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.