Skip to main content

Þakklátar fyrir góðar viðtökur við nýrri plötu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. feb 2025 17:50Uppfært 13. feb 2025 17:55

Gréta Sigurjónsdóttir og Erla Ragnarsdóttir, löngum kenndar við hljómsveitina Dúkkulísurnar, sendu síðasta haust frá sér nýja plötu sem heitir „Lífið er ljóðið okkar.“ Þær fylgdu plötunni eftir með tónleikum sem voru vel sóttir.


„Viðbrögðin hafa verið bæði óvænt og gleðileg. Fólk er beinlínis að tala um hana sem svona lítinn sólargeisla þar sem hún er full af hlýju og er auðvitað gul á litinn. Þetta er gula platan,” segir Erla og hlær.

„Við heyrum að margir séu komnir með sín uppáhaldslög af henni sem er skemmtilegt að heyra. Við erum afar þakklátar á þessari stundu. Við héldum tvenn útgáfupartý, útgáfu og hlustunarpartý, bæði í höfuðborginni og á Egilsstöðum og var troðfullt hús á báðum stöðum. Við vorum í skýjunum með viðtökurnar“

Erla viðurkennir fúslega að tónlistin á plötunni sé frábrugðin því sem þær hafa unnið áður. „Það hefur verið gantast með það í gegnum tíðina að við séum svona væmnasti hluti Dúkkulísanna. Það er ekki mikið rokk eða pönk á þessari plötu svo það má segja að þarna sýnum við mýkri hliðina. Við fáum nokkurs konar útrás fyrir texta og lög sem við höfum ekki fundið farveg fyrir annars staðar.“

Margir kunna að spyrja, og hafa sannarlega gert samkvæmt Erlu, þegar hluti liðsmanna Dúkkulísanna gefa út sína eigin tónlist, hvort það þýði hugsanlega að dagar hljómsveitarinnar frægu séu allir.

„Alls ekki. Þetta er bara hliðarverkefni okkar Grétu en hljómsveitin lifir áfram, vonandi sem lengst, og það getur jafnvel eitt og annað dúkkað upp í framtíðinni. Við erum allar á einhvern hátt að vinna í tónlist með einhverjum hætti meðfram Dúkkulísunum, annaðhvort með öðru tónlistarfólki, í böndum eða í kórum og slíku og höfum gert lengi.

Það kom ekki til tals að Dúkkulísurnar kæmu saman sérstaklega út af þessu ákveðna verkefni en hljómsveitin hefur þó spilað sum þessara laga á tónleikum í gegnum tíðina svo það er ákveðin skörun þar og það er bara skemmtilegt.“



Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.