Skip to main content

„Það versta var að eiga ekki bara von á ógn af jörðu heldur líka úr lofti“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. apr 2025 15:52Uppfært 16. apr 2025 15:54

Ógnarstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, leið loks undir lok í desember í fyrra, þegar hann flúði land á meðan andspyrnuhreyfingar náðu hverri borginni á eftir annarri á sitt vald. Þar með er að mestu lokið 13 ára borgarastyrjöld sem hrakið hefur um sjö milljónir manna á flótta. Þeirra á meðal er Kinan Kadoni, sem síðasta sumar settist að á Borgarfirði.


Kinan er alinn upp í Saraqib, borg í norðanverðu þar sem um 30.000 manns bjuggu fyrir stríðið. Hann er í miðjunni af fimm bræðrum og lýsir bernskunni sem áhyggjulausri enda hafi börnin verið saklaus gagnvart pólitíkinni en Assad-fjölskyldan stjórnaði landinu af hörku.

Þegar Kinan eltist gerð hann sér hins vegar grein fyrir að stjórnin landsins væri óeðlileg. Assad-veldið ætlaðist til að þegnarnir þegðu og ynnu meðan hún sópaði til sín verðmætum. Vonir voru um betri tíma upp úr aldamótum þegar Bashar tók við af föður sínum. Vissulega var slakað á klónni um tíma en rækilega kreppt að aftur í kjölfar arabíska vorsins og mótmæla gegn sýrlenskum stjórnvöldum árið 2011. Talið er að um 600.000 manns hafi látist, þar af helmingurinn óbreyttir borgarar og að 13 milljónir manna hafi flúið heimili sín, þar af helmingurinn úr landi, frá 15. mars 2011.

Flúði herskylduna


Kinan segir vini sína hafa snemma hugsað sér að yfirgefa Sýrland og fá vinnu annars staðar. Hann hafi hins vegar ekki séð það fyrir sér. Þó fór hann fyrstur. „Það var ekki ákvörðun, frekar kvöð og það tók mig langan tíma að aðlagast því að ég hafði farið.“

Hann yfirgaf landið 5. desember árið 2010, áður en stríðið braust út, til að forðast herskyldu. „Eldri bróðir minn var í hernum. Það olli fjölskyldu minni miklum vanda vegna spillingarinnar í stjórnkerfinu. Hann var með brjósklos í baki og hefði þess vegna átt að geta sinnt svokallaðri „skrifborðsherskyldu.“ Í staðinn var hann settur í sérsveitina í stranga líkamlega þjálfun þótt hann gæti varla gengið. Eina leiðin til að tryggja honum einhvers konar mannúðlegrar meðferðar var að borga yfirmönnum hans múturnar sem þeir kröfðust.“

Kinan segir fjölskyldur hafa stökum sinnum getað heimsótt hermennina. Hann hafi ekki þekkt bróður sinn þegar hann kom að herstöðinni, úr fjarska sá hann tvo menn bera þann þriðja uppi. „Ég sárvorkenndi manninum og fjölskyldu hans, hélt að hann ætti andlega erfitt. Síðan kom í ljós að þetta var bróðir minn. Þarna var tveggja ára herskylda hans bara rétt að byrja. Ég gat ekki hugsað til þess að ég yrði sama byrðin á fjölskyldu minni.“

Kinan var þá í námi og nemar geta þrisvar sinnum frestað því að hefja herskyldu. Kinan var á síðasta séns en þó frjáls ferða sinna, þegar hann fór til Belgíu í desember 2010, en hafði þó fengið boð um að hefja skylduna í mars 2011. Í þeim mánuði hófst stríðið. „Tíminn í herskyldunni var lengdur eftir að stríðið hófst. Fólk þurfti því að vera í 6-7 ár í hernum. Ég veit ekki hvernig hefði farið fyrir mér ef ég hefði farið í herinn. Hermönnum var skipað að skjóta á fólkið sem mótmælti, ef þeir gerðu það ekki voru þeir skotnir sjálfir. Þannig fór fyrir einum nágranna minna.“

Erfitt að fylgjast með úr öruggri fjarlægð


Kinan var því í Belgíu þegar borgarastríðið hófst í Sýrlandi. Hann segist í fyrstu hafa verið hissa á að fólkið þyrði að mótmæla Assad, með augu og eyru leyniþjónustunnar alls staðar og fortíðina þar sem mótmæli höfðu verið barin niður af mikilli hörku. Það breyttist ekki að þessu sinni.

„Ég var öruggur en fylgdist með fréttum og hringdi heim í fjölskyldu og vini. Mér var alltaf sagt að einhver vinur eða ættingi hefði dáið þann daginn. Það var ekki auðvelt og ég man að ég ætlaði heim en komst ekkert því ég var vegabréfslaus. Ég höndlaði ekki að vera erlendis í öryggi vitandi af öllu sem gengi á. Að ég gæti ekkert gert nema horft á og að á hverri stundu gæti ég átt von á símtali um að heimilið hefði sprengt upp og fjölskyldan öll væri dáin.

Ég átti nána vini sem börðust, annars vegar fyrir uppreisnarliðin og hins vegar fyrir Sýrlandsher, og féllu. Fyrir stríðið var það þannig í Saraqib að látinna var minnst stuttlega í moskunum og bent á hvar minningarathöfnin sjálf færi fram. Ef ung manneskja dó þá var það á allra vörum. Í stríðinu varð dauðinn eðlilegur.

Maður spurði bara hvort viðkomandi hefði látist í heilu lagi, það þótti lúxus. Fyrst eftir að stríðið hófst grét ég þegar ég heyrði að vinur eða nágranni hafði dáið. Síðan verður maður dofinn. Assad drap líka tilfinningar okkar.“

Fólk flúði til að bjarga lífi sínu


En Kinan fann leið til að hjálpa og fór til Grikklands að aðstoða landa sína sem komu þangað sem flóttamenn. Þar hafi hann í fyrsta sinn staðið augliti til auglits við hörmungar heimalandsins.

Hann segir sögurnar af því hvernig fólk hafi farið frá Sýrlandi með það sem það gat borið með sér. Það hafi síðan keypt dýrar ferðir af smyglurum sem sendu þau út á Grikklandshaf í bátum sem ekki gátu borið þann fjölda sem troðið var um borð.

„Fólk féll í hafið og drukknaði því báturinn bar það ekki. Það telur sig vera að kaupa ferð í 10 manna báti og greiðir kannski fyrir það 5000 eða jafnvel 10.000 evrur (725.000-1.450.000 krónur). Ef það neitar að fara um borð er því hótað lífláti. Fólk hefur kannski borið með sér töskur, skilríki eða aðrar eigur en þarf að skilja allt eftir áður en farið er um borð.“

Á flóttafólkið var borið að það væri ekki í slæmri stöðu því það ætti nýja snjallsíma. „Ég man eftir þessum sögum -en hvað um það? Fólk fór ekki frá Sýrlandi því það svalt, heldur út af stríðinu, til að bjarga lífi sínu,“ segir Kinan.

Ástandið getur ekki orðið verra en hjá Assad


Borgarastríðið harðnaði enn frekar og Assad virtist kominn með stjórnina á ný, þar til allt í einu í lok síðasta árs þegar valdakerfi hans féll eins og spilaborg þegar uppreisnarmennirnir náðu hverri borginni á fætur annarri.

„Það var sláandi hvað það gerðist hratt. Við Sýrlendingar í Evrópu erum með hópa á WhatsApp þar sem við skiptumst á fréttum. Fyrst heyrði ég að borgin mín væri frjáls undan írönsku hermönnunum sem hafa ráðið henni síðustu fimm ár. Svo bárust fréttir af því á 5-10 mínútna fresti að næstu borgir væru frjálsar. Ég trúði þessu ekki – en þetta var líka í fréttunum. Svo var Bashar allt í einu flúinn.“

Landið er þó ekki sameinað og skærur hafa blossað upp að undanförnu. Þá eru efasemdir um nýjan leiðtoga, Ahmed al-Sharaa og HTS-samtök hans en hann var áður bandamaður al-Qaeda og Íslamska ríkinu.

„En í okkar huga þá getur ástandið ekki orðið verra en það hefur verið síðustu 14 ár undir stjórn Assads. Við þurfum ekki lengur að óttast að flugvélar varpi sprengjum eða þyrlur efnavopnum. Það var það versta, að eiga líka von á ógn úr lofti en ekki bara af jörðu.“

Mikið verk framundan við uppbyggingu


Nær öll fjölskylda Kinans flúði land. Einn bróðir hans varð eftir en kom sér að lokum út úr Saraqib. Fjölskyldan er að reyna að endurbyggja heimilið en það er mikið verk. Gat er í þakinu eftir sprengju sem fór þar í gegn en sprakk ekki. Stríðsmenn sóttust í málma því hægt var að selja þá í brotajárn og rifu því allar lagnir úr húsinu.

Kinan bendir á að mikið verk sé að endurbyggja landið. Ekki bara húsin, innviði og efnahagslíf heldur öryggi. Sprengjur séu út um allt. „ Ekki bara grafnar í jörðu úti á víðavangi heldur líka inni í húsum. Þær eru faldar undir púðum og fötum. Það er unnið að því að fjarlægja þær en það mun taka langan tíma.“

Alls staðar er meirihlutinn vingjarnlegur


Kinan kom fyrst til Íslands árið 2016, hafði þá kynnst Þórunni Ólafsdóttur frá Fáskrúðsfirði í hjálparstarfi á grísku eyjunni Lesbos og kom til að segja frá ástandinu. Ári síðar fluttist hann til landsins. Hann og Þórunn fluttu á Borgarfjörð í fyrra ásamt ungum syni þeirra.

Hann segir að almennt hafi komum gengið vel að aðlagast Íslandi og verið vel tekið. Kuldinn bíti stundum en hann hafi lært að klæða sig eftir veðri. Þá sjaldan sem hann hafi orðið fyrir kynþáttafordómum hafi Íslendingar komið honum til varnar af krafti.

„Í eitt skiptið skrifaði einhver kona á Facebook við mynd af mér að ég ætti að raka mig því skeggið væri ekki ljóst. Strax fór fólk að svara með myndum af sér eða fólkinu sínu með mikið skegg. Ég var næstum kominn í róa fólkið niður. Kynþáttafordómar eru alls staðar, líka í Sýrlandi. Yfirleitt er þessi hópur bara hávaðasamur á meðan yfirgnæfandi meirihluti tekur manni opnum örmum og sem manneskju.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.