Útgerðir horfa til gulldeplu

Útgerðir leita nú nýrra leiða í afla þar sem útlitið á loðnu er ekki beisið og bróðurpartur síldar sem veiðist ekki hæfur til manneldis. Auk Hugins VE, sem verið hefur við tilraunaveiðar á laxsíld, er Birtingur á leið í leit að henni og Loðnuvinnslan að gera skip og veiðarfæri klár í hið sama.

punktalaxasild.jpg

Í dag hélt Birtingur, eitt skipa Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, til veiða á laxsíldartegundinni gulldeplu. Mjög smáriðin net þarf til að veiða þessa tegund, sem er afar lítil. Huginn VE hefur verið á tilraunaveiðum á gulldeplu með hléum frá því fyrir jól og hafa nú síðast veiðst um 650 tonn. Áætlað er að Huginn verði við þessar veiðar til janúarloka.

Kannaðir hafa verið í nokkur ár möguleikar á veiði laxsíldar, einkum út af Reykjaneshrygg. Síldarvinnslan sendir Birting nú á miðin úti fyrir Suðurlandi til veiða. Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er einnig að undirbúa veiðar á gulldeplu, en það verður væntanlega ekki fyrr en um næstu mánaðarmót.

 

Á Vísindavefnum segir að eitt af helstu einkennum fiska af ætt laxsílda séu ljósfærin. ,,Ljósfæri eru líffæri sem gefa frá sér ljós hjá fiskum og nokkrum öðrum hópum dýra. Ljósið kemur vegna efnahvarfa sem verða í frumum á ysta lagi dýranna. Ljósfærin eru mismörg og á mismunandi stöðum eftir tegundum og má meðal annars greina einstaklinga til tegunda eftir fjölda og staðsetningu þessara ljósfæra.

Laxasíldar eru frekar smáir fiskar og eru á bilinu 6 til 20 sentímetrar á lengd. Ekki eru til nægjanlegar upplýsingar um ýmsa þætti í vistfræði fiskanna þar sem ekki hafa verið gerðar nægjanlega margar rannsóknir á laxsíldum.

Íslendingar hafa hingað til ekki hagnýtt laxsíldarnar en nú er hafið samstarfsverkefni milli nokkurra opinberra stofnanna og útgerðafyrirtækja þar sem veiðanleiki þessara tegunda er kannaður. Ráðgert er að nýta laxsíldina í bræðslu ef niðurstöður samstarfsverkefnisins verða jákvæðar," segir á Vísindavefnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.